149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er hollt fyrir alla stjórnmálamenn að setjast öðru hverju niður, sérstaklega ef þeir detta tímabundið út af þingi, til að átta sig á því til hvers þeir starfa í stjórnmálum. Hver eru markmiðin? Hvað á maður ógert? Hvað er það sem maður brennur fyrir að breyta á Íslandi?

Eitt af því sem ég brenn fyrir er það stóra sameiginlega verkefni okkar stjórnmálanna, atvinnulífsins og samfélagsins alls að auka samkeppnishæfni Íslands. Af hverju ættum við að vilja það? Vegna þess að með því styrkjum við hagkerfi Íslands. Við aukum stöðugleika og verðmætasköpun sem leiðir af sér aukin lífsgæði fyrir alla borgara í landinu. Atvinnulífið okkar verður fjölbreyttara. Allt þetta samanlagt leiðir til þess að ungt fólk sem er að velja sér hvar í heiminum það ætlar að búa er líklegra til að velja sér búsetustað á Íslandi. Það viljum við að sjálfsögðu styðja við.

Hvernig í ósköpunum aukum við samkeppnishæfni Íslands? Við gerum það með umbótum í menntakerfinu, með því að tryggja að menntakerfið hlusti á það hvað atvinnulífið vantar, með því að styðja iðnnám og með því að fjölga tækifærum fyrir ungt fólk til að taka sér sæti á skólabekk, m.a. í háskóla, eins og ágætt frumvarp hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur leiðir til. Þetta er mikilvægt. Það er mikilvægt að öll börn í landinu fái jöfn tækifæri til að mennta sig.

Við þurfum að búa nýsköpun og nýsköpunarfyrirtækjum umhverfi á heimsmælikvarða. Við þurfum að standa að uppbyggingu innviða og bæta starfsskilyrði fyrirtækja þannig að ekki verði of flókið fyrir fyrirtækin að velja sér búsetustað á Íslandi. Stöðugleiki er mikilvægur til þess að við getum aukið samkeppnishæfni Íslands og það er akkúrat það sem sú ríkisstjórn sem hér starfar býður upp á. Ég fagna því að fá að taka þátt í þeirri vegferð sem ríkisstjórnin er á.