149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir gerði hlaupabólu og bólusetningu gegn henni að umræðuefni. Mig langar að nota þennan vettvang til að segja að í svari hæstv. heilbrigðisráðherra við skriflegri fyrirspurn minni til munnlegs svars kom fram að þetta mál væri núna til jákvæðrar skoðunar innan ráðuneytisins og að kostnaðargreining á því benti til þess að það yrði mjög hagkvæmt fyrir íslenskt samfélag. Ég held því að við getum vænst þess að eitthvað muni gerast í þessum málum nú á næstunni. Ég held að það sé mjög jákvætt.

Það var annars ekki þetta mál sem varð þess valdandi að ég kveð mér hljóðs hér, heldur langar mig að vekja athygli á þingmáli sem er nr. 14 á dagskránni í dag, sem fjallar um samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Ég hef áður gert að umræðuefni hér í ræðustóli kjarnorkuvopn og kjarnorkuvopnakapphlaup og mikilvægi þess að kjarnorkuvopn verði bönnuð með alþjóðasáttmálum. Það skiptir máli að við tölum um þessi mál og við vekjum okkur sjálf, almenning og aðra jarðarbúa til meðvitundar um þessi mál.

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir hafi tekið þessi mál upp á fundi sínum með Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Nú hafa 25 sitjandi þingmenn undirritað einhvers konar áskorun eða loforð um að veita þessum samningi brautargengi og ég vona svo sannarlega að þessir þingmenn helli sér í umræðuna um þetta gríðarlega mikilvæga þingmál þegar líða fer á daginn.