149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Ég veit að hæstv. forseti getur verið mér sammála um að kjördæmavikur eru eitt það skemmtilegasta sem gerist í lífi og starfi þingmanna. Þá gefst okkur tækifæri til að fara víða og það gerðum við, þingmenn Viðreisnar, og finna hvað brennur á fólki vítt og breitt um landið. Auðvitað eru mismunandi viðhorf, umhverfið er mismunandi og aðstæður líka. Þá er náttúrlega hlutverk okkar að reyna að horfast í augu við raunveruleikann á hverjum stað fyrir sig og velta því fyrir okkur hvernig við getum gert betur. Þvert yfir alla flokka vilja allir gera betur og það er líka eitt það góða, sem við megum alveg draga fram, að oftar en ekki er gott samstarf þvert á flokka um hagsmuni allra landsmanna.

Við fórum m.a. á Suðurnesin og vorum lengi í Reykjanesbæ. Við tókum hús á lögreglunni þar sem farið var yfir mjög breytt umhverfi — því er stjórnað með sóma en umhverfið er gjörbreytt þar — og eins var hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Bæði þessi embætti standa frammi fyrir gjörbreyttu umhverfi, og fólkið sem býr þar en ekki síður þeir sem starfa þar. Það er 25% fjölgun á síðustu árum á Suðurnesjunum. Þetta er orðið fjórða stærsta sveitarfélag landsins en því miður hafa stjórnvöld, hver sem þau eru hverju sinni, nú þessi ríkisstjórn, ekki horfst í augu við það breytta umhverfi og það álag sem fylgir ekki síst inn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Við heyrðum í bæjarstjóranum og fulltrúa bæjaryfirvalda og það var einróma — það eru mismunandi áherslur, mismunandi hagsmunir á milli bæja og sveitarfélaga — stuðningur við að halda betur utan um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, styðja hana á þann veg að stofnunin geti staðið undir þessari breyttu mynd, 25% fjölgun eins og ég gat um. Ekki er verið að sýna það af hálfu stjórnvalda þegar kemur að stuðningi. (Forseti hringir.) Ég hvet heilbrigðisyfirvöld sérstaklega til þess að skoða aðstæður á Suðurnesjum, í Reykjanesbæ. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)