149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Undanfarna daga hefur verið rætt mjög um kjör bankastjóra Landsbankans. Það vill svo til að nú í morgun birtist frétt á mbl.is þar sem bankaráð Landsbankans segir að laun bankastjóra bankans séu að mati þess í samræmi við eigendastefnu ríkisins þar sem fram kemur að starfskjarastefna bankans skuli vera samkeppnishæf en hófleg og ekki leiðandi. Bankaráðið telur sem sagt að þær 4 milljónir sem bankastjórinn hefur í laun séu hófleg laun.

Við þessa yfirlýsingu bankaráðsins vaknar ein spurning mín til þess: Hvar er línan þar sem óhófið byrjar? Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir alla ef bankaráð Landsbanka Íslands myndi birta upplýsingar um hvað er óhóflegt að mati þess.

Það hefur komið fram að á árunum 2009–2017 voru laun bankastjóra Landsbankans lægri en annarra viðskiptabanka vegna þess að bankinn var í eigu ríkisins. Það hefur líka komið fram að þegar Íslandsbanki fór í hendur ríkisins lækkuðu laun þess bankastjóra sem þar starfaði ekki, heldur voru þau viðmiðun til að hægt væri að hækka laun bankastjóra Landsbankans. Nú tek ég skýrt fram að ég er ekki að tala um persónur og leikendur, ég er bara að tala um embættið eða starfið, og mér þykir satt að segja furðulegt að þarna erum við að tala um fyrirtæki sem er að 98% í eigu ríkisins. Það er kannski hugmynd fyrir þá sem skipa þetta bankaráð að koma málum þannig fyrir að þjóðin geti sagt álit sitt á störfum þess á sirka fjögurra ára fresti og kosið bankaráðið beinni kosningu. Eins og er núna hafa kjörnir fulltrúar í þessu landi engan aðgang og ekkert aðgengi og enga aðkomu að neinum þeim ráðstöfunum eða ákvörðunum sem teknar eru í þessum banka (Forseti hringir.) sem ríkið eða þjóðin á þó 98,3% í. Það er umhugsunarefni.