149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Í september síðastliðnum fór fram umræða í þingsal um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í tannréttingum þeirra sem fæðast með klofinn góm eða vör og var þá fyrirspurn beint til hæstv. heilbrigðisráðherra. Í svörum hans kom fram að álitamál væri hvernig túlka ætti reglugerð. Hæstv. ráðherra ítrekaði að fara ætti í vinnu innan ráðuneytisins til að skýra stöðu þeirra barna sem um ræðir, með öðrum orðum koma í veg fyrir að börnin og foreldrar þeirra yrðu sett í svona ójafna stöðu.

Til að gera langa sögu stutta sendu foreldrar umsókn um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga nú í febrúar þar sem búið var að breyta orðalagi reglugerðarinnar. Umsókninni var synjað á þeim grundvelli að ekki væri unnt að meta hversu alvarlegur talvandi barnsins yrði. Því sama var haldið fram áður og þess vegna má draga þá ályktun að ekkert hafi breyst. Er verið að afgreiða umsóknir á grundvelli óbreyttrar reglugerðar þrátt fyrir skýrara orðalag? Er verið að hunsa góðan vilja hæstv. ráðherra? Hvað er um að vera?