149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun var beðið um að fundir nefndarinnar yrðu lengri og fundum yrði fjölgað. Ég lagði fram bókun um þá beiðni sem hljómar að hluta til svona, með leyfi forseta:

Lenging fundartíma og fjölgun funda hefur gríðarlega mismikil áhrif á nefndarmenn og önnur þingstörf þeirra. Þörfin fyrir lengingu nefndafunda og fjölgun funda fellur að mínu mati algerlega á skipulagsleysi nefndastarfa af hálfu fyrri stjórnar nefndarinnar og skipulagsleysi þess hvernig stjórnarmeirihlutinn afgreiddi samgönguáætlun. Samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar tók nefnilega nær allan tíma nefndarinnar á liðnu haustþingi og meira að segja hluta af störfum núverandi vorþings. Það varð niðurstaðan að leggja þarf fram nýja samgönguáætlun í haust. Það er svo sem skiljanlegt að nefndin taki sér góðan tíma í jafn mikilvæga áætlun, alla jafna, en sú áætlun sem við enduðum með hefði alls ekki átt að taka svona mikinn tíma.

Að lengja og fjölga fundum hefur mismikil áhrif á nefndarmenn. Ég hef t.d. mætti á 65 nefndarfundi það sem af er þessu þingi, en formaður nefndarinnar hefur mætt á 25. Þingmenn þurfa að sinna fjölmörgum störfum og skipulagning vinnunnar miðast við nefndastörfin og þingfundi. Allur undirbúningur fer fram utan þess tíma sem nefndafundir eru og mjög oft utan þess tíma sem þingfundir eru, þar sem fylgja þarf málum eftir á þingfundi.

Þess má geta að ansi langur tími fór í að ræða forsendur þess að það þyrfti að lengja fundi og fjölga þeim. Hluti rökstuðningsins fyrir því var sá að ríkisstjórnarmál sem lægju fyrir nefndinni væru svo mörg eða að það væru svo mörg mál á þingmálaskrá. Það var því mjög kaldhæðnislegt að næsta mál á dagskrá var þingmannamál formannsins. Ég hef ekkert á móti afgreiðslu þingmannamála en ekki er á sama tíma hægt að biðja um meiri tíma til að afgreiða ríkisstjórnarmál og horfa svo upp á formann eyða tíma í sitt eigið mál.