149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að ræða við hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur um heildarendurskoðunarferli hennar um stjórnarskrána. Áhersla umræðunnar verður það heildarendurskoðunarferli sem forsætisráðherra lagði til 22. janúar á síðasta ári.

Í öðru lagi: Hverjir eru áfangar verkefnisins? Hver er staða þeirra í dag og hvernig lítur síðan framhaldið út?

Í þriðja lagi: Hvaða tækifæri telur Katrín Jakobsdóttir, hæstv. forsætisráðherra, felast í þessari heildarendurskoðun sem hún hefur lagt til og þá sérstaklega með samráði við almenning með rökræðukönnunum?

Fyrsta atriðið er það sem forsætisráðherra nefnir í minnisblaði um sitt verkefni fyrir ári síðan. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs. Nefnd um málið mun hefja störf í upphafi nýs þings og leggur ríkisstjórnin áherslu á að samstaða náist um feril vinnunnar.“

Áfram held ég með það sem segir í minnisblaði forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra leggur til eftirfarandi feril í ljósi þessa fyrirheits í stjórnarsáttmála og samskipta milli formanna flokkanna og fulltrúa þeirra á síðasta kjörtímabili.“

Það er alveg ljóst að þessi orð eins og önnur í stjórnarsáttmálanum eru bindandi fyrir þessa ríkisstjórn. Hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur sagt að þetta sé það sem ríkisstjórnin ætlar að gera. Hæstv. ráðherrar Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson hafa báðir samþykkt þetta. Sáttmálinn var síðan lagður fyrir og samþykktur af flokksráðum og miðstjórnum Sjálfstæðisflokksins, 200 manns þar, Framsóknarflokksins, 200 manns þar, og Vinstri grænna, 80 manns þar. Sem forsætisráðherra fékk hún þetta inn í stjórnarsáttmálann sem er mjög virðingarvert og mjög mikilvægt fyrir áframhaldandi ferli og jafnframt var þetta samþykkt af öllum hlutaðeigandi. Hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra því fullt umboð þjóðarinnar sem forsætisráðherra landsins, ríkisstjórnarinnar, sem hefur samþykkt að fara í þessa heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, og stjórnarflokkanna um að — ég vitna aftur í sáttmálann — „halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs“.

Sá sem svíkur þetta í stjórnarsáttmálanum er ómerkingur orða sinna. Ef ekki er hægt að treysta því að þeir flokkar sem aðkomu hafa standi við þetta í stjórnarsáttmálanum eru þeir ekki stjórntækir. Þá þarf að efast um orð þeirra þegar verið er að semja næsta stjórnarsáttmála, þá eru þeir óstjórntækir. Gleðifréttirnar eru þær að forsætisráðherra hefur valdið varðandi heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þessari ríkisstjórn. Hún hefur fulla heimild til þess. Ég er að hefja þessa umræðu til að forsætisráðherra hafi tækifæri til að koma hingað upp og tala um þetta mál og tala um tækifærin sem í því felast og þau eru vissulega mörg, svo að við fáum að sjá hvort viljinn sé til staðar, við þurfum ekki treysta því í blindni að þarna sé vilji til staðar af því að valdið er hjá forsætisráðherra.

Mig langar því að spyrja forsætisráðherra: Hverjir eru áfangar verkefnisins? Hver er staða þess þá í dag og hvert er útlitið með framhaldið?

Þetta kemur svolítið fram í minnisblaðinu en ákveðnir þættir eru smáóljósir. Mér sýnist umræðuskjalið, sem er fyrsta atriðið og átti að vera tilbúið í júní á þessu ári, enn vera innan ramma en síðan byrjar þetta opna samráð með rökræðukönnunum, eins og segir í minnisblaði forsætisráðherra, um hvert og eitt þessara atriða. Svo landsmenn viti hver atriðin eru skal ég nefna þau, það er umhverfið og náttúruauðlindir, nýting auðlinda og vernd umhverfisins. Það er valdframsal frá stjórnmálamönnunum, annars vegar til alþjóðlegra stofnana en hins vegar líka til landsmanna sjálfra í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo er það forsetakaflinn og framkvæmdarvaldskaflinn og að lokum er það endurskoðun á því hvernig við breytum stjórnarskránni. Þetta er það sem á að gera og um það er búið að búa til umræðuskjal. Næst er almenningssamráð, samráð við almenning, m.a. er hér talað um rökræðukannanir.

Það sem mér finnst langmest spennandi í þessu ferli öllu saman eru þessar rökræðukannanir. Hafa prófessorar frá Harvard og Stanford, James S. Fishkin við Stanford-háskóla og Lawrence Lessig, lagaprófessor við Harvard-háskóla, lofað því að aðstoða íslensk stjórnvöld ókeypis og koma að þessum rökræðukönnunum. Þær þýða að stjórnmálamennirnir, sem greinir á um mikið af þessum hlutum, geta sett fram sín sjónarmið en landsmenn eru valdir af handahófi til að koma saman og fara „grundigt“ í rökræðuna út frá sjónarmiðum stjórnmálamannanna, hvað þeim finnst rétt um þessi erfiðu álitamál. Þetta hefur þýtt að í mörgum þjóðríkjum hafa landsmenn náð að koma sér saman um (Forseti hringir.) stjórnarskrárbreytingar sem stjórnmálamenn hafa ekki getað gert. Ég hlakka til að heyra hvernig forsætisráðherra lýsir fyrir okkur ferlinu.