149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Tvennt vekur einkum athygli við umræðu um þá vinnu sem hæstv. forsætisráðherra hefur haldið utan um við endurskoðun stjórnarskrárinnar; annars vegar að fulltrúi Pírata, hv. þm. Jón Þór Ólafsson, skuli spyrjast fyrir um vinnu sem flokkur hans hefur verið þátttakandi í og hann jafnvel sjálfur að nokkru leyti. Það er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að Píratar, þingflokkur þeirra allur að mér skilst, hefur þegar lagt fram tillögu að nýrri stjórnarskrá, lagt fram frumvarp um nýja stjórnarskrá og ef eitthvað er að marka það frumvarp er ekki hægt að líta öðruvísi á en svo að þar með hafi Píratar sagt sig frá þeirri vinnu sem hv. þingmaður flokksins spyr nú um.

Hitt sem vekur athygli er að hæstv. forsætisráðherra skuli líta fram hjá þeirri staðreynd og láta eins og ekkert hafi í skorist. Reyndar er eins og hæstv. ráðherra virðist líta fram hjá því að í raun hefur vinnan ekki skilað samstöðu um nokkurt atriði umfram það sem þegar var samstaða um þegar vinnan hófst. Má jafnvel segja að ákveðin gliðnun hafi átt sér stað, þ.e. að myndast hafi ágreiningur um mál sem ekki var ágreiningur um áður. Skýrasta dæmið er kannski frumvarp hv. þingmanna Pírata sem ekki getur falið annað í sér en brotthvarf þeirra frá vinnunni. Brotthvarf þeirra frá þeirri samstöðu sem þó hafði myndast um hvernig unnið yrði að breytingum á stjórnarskránni. Því að varla ætlast Píratar til þess að menn ræði hér af alvöru frumvarp þeirra um nýja stjórnarskrá en á sama tíma séu þeir af alvöru að vinna samkvæmt annarri aðferð og öðrum áformum sem þó hafði myndast einhvers konar samstaða um við endurskoðun stjórnarskrárinnar.