149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu. Hún endurspeglar að vissu leyti hve ólík við erum hér. Við erum ólík í því stóra og mikla viðfangsefni sem stjórnarskráin okkar er og við eigum líka að hafa ákveðið frelsi til að vera með okkar áherslur í þeirri vinnu sem nú fer fram undir forystu forsætisráðherra. Hvað þá vinnu alla varðar vil ég undirstrika að við í Viðreisn höfum okkar skoðun, við teljum að breyta þurfi stjórnarskránni. Það eru ólíkar skoðanir innan Viðreisnar eins og innan margra flokka en við viljum af einlægni taka þátt í því starfi sem forsætisráðherra hefur lagt upp með og styðjum það fyrirkomulag sem hún hefur beitt sér fyrir. Ég vil auðvitað líka hvetja hæstv. forsætisráðherra til að halda sínu fólki innan ríkisstjórnar við efnið því að í stjórnarsáttmálanum er talað um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Allir ríkisstjórnarflokkarnir verða líka að starfa af einlægni og heiðarleika þegar kemur að því að vinna að breytingum á stjórnarskrá.

Ég hefði vissulega viljað sjá ákveðnum hlutum forgangsraðað. Við getum talað um heildarendurskoðun eða ekki, við erum í ákveðinni vegferð sem ég tel mjög mikilvæga. Við megum ekki láta hjá líða að nýta það tækifæri sem nú gefst. Við eigum heldur ekki að leyfa þeim sem vilja engu breyta að komast upp með að engar breytingar verði gerðar. Auðvitað er skrefið sem við erum að stíga núna ákveðin málamiðlun. Ég hefði viljað sjá jöfnun atkvæðisréttar tekna fyrir á þessu kjörtímabili en ekki á því næsta. En það er ýmislegt annað sem ég legg líka áherslu á og við í Viðreisn, eins og það að fá auðlinda- og umhverfisákvæðið fram hið fyrsta. Það er búið að bíða allt of lengi með að ná slíku ákvæði fram og ég tel vera lag núna til að það takist ásamt öðrum mikilvægum málefnum. Ég nefni forsetakaflann, framsalsákvæðið, breytingarákvæðið, allt gríðarlega mikilvæg atriði. Við erum í raun að vinna að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar næstu átta árin. (Forseti hringir.) Ég styð upplegg hæstv. forsætisráðherra og mun starfa af einlægni og heiðarleika í allri þeirri vinnu sem fram undan er.