149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:35]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að eiga frumkvæði að þessari umræðu. Samfylkingin styður það markmið nefndar forsætisráðherra að standa að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og vill vinna að heilindum innan þeirrar nefndar sem annars staðar.

Stjórnarskráin er grunnlög íslensks samfélags og enn er grundvallarplagg íslenskrar stjórnsýslu bráðabirgðaplagg. Grundvallarplagg íslenskrar stjórnsýslu er enn þá bráðabirgðaplagg. Við súpum seyðið af því með ýmsu móti, í óljósum reglum, í skorti á stjórnfestu og í spunastjórnsýslu. Í þessu nefndarstarfi felast ýmis tækifæri sé þar unnið af heilindum. Það er mikilvægt að allir flokkar komi að þessari vinnu, enda erum við sem hér sitjum fulltrúar ólíkra hugsjóna og ólíkra hagsmuna sem mikilvægt er að hugað sé að í vinnu af þessu tagi. Veikleikinn er sá að menn kunni að nota þetta starf til að þæfa málið og tefja, menn sem telja okkur vel sett með frelsisskrá úr föðurhendi sem við fengum 1874, menn sem vilja ekkert gera í endurskoðun stjórnarskrárinnar og gera það ekkert vel og vandlega og vera lengi að því.

Formaður Sjálfstæðisflokksins fann sig knúinn til að láta bóka í nefndinni að hann teldi ekki þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem voru náttúrlega fréttir fyrir aðra sem töldu sig vera að vinna samkvæmt sjálfu erindisbréfi nefndarinnar um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Stjórnarskráin er ekki einkamál lögfræðinga eða stjórnmálamanna, hún varðar okkur öll. Stjórnarskráin snýst ekki bara um grundvöll samfélagsskipanarinnar heldur líka daglegt líf okkar og framtíð barnanna okkar. (Forseti hringir.) Hún snýst um mannréttindi, lýðræði, náttúruvernd, auðlindir og sjálfbærni. Hún snýst um valdið í samfélaginu.