149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[16:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja sem undirritaður var 28. apríl 2016. Tillaga þessa efnis var áður flutt á 146. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er því endurflutt.

EFTA-ríkin og Filippseyjar hófu viðræður um gerð fríverslunarsamnings í mars 2015 og lauk þeim í febrúar 2016. Samningurinn kveður á um gagnkvæma niðurfellingu og lækkun tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar og óunnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á flestallar sjávarafurðir og iðnaðarvörur, sem fluttar eru út frá Íslandi til Filippseyja, falla niður og sama á við um helstu landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi til útflutnings. Samningurinn mun því bæta samkeppnisstöðu íslenskra útflytjenda sem flytja vörur sínar út til Filippseyja.

Samningurinn er jafnframt liður í því sameiginlega verkefni EFTA-ríkjanna að bæta markaðsaðgang fyrirtækja þeirra að mörkuðum víðs vegar um heim með gerð fríverslunarsamninga. EFTA-ríkin hafa sameiginlega gert 29 slíka samninga við 40 ríki eða ríkjahópa.

Í þingsályktunartillögunni er gerð grein fyrir helstu efnisþáttum fríverslunarsamningsins. Þar kemur fram að samningurinn inniheldur m.a. ákvæði um vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjárfestingar, verndun hugverkaréttar, opinber innkaup, samkeppnismál og viðskipti og sjálfbæra þróun.

Útflutningur á vörum frá Íslandi til Filippseyja hefur verið lítill, eða sem nemur á bilinu 30–100 milljónum kr. á ári. Hefur þar fyrst og fremst verið um að ræða útflutning á lax, makríl og tækjabúnaði, einkum vogum og búnaði í tengslum við jarðboranir. Einnig hafa íslenskir aðilar í talsverðum mæli selt þjónustu sína og þekkingu vegna rannsókna og nýtingar á jarðhita á Filippseyjum. Innflutningur frá Filippseyjum hefur á undanförnum árum numið um 300–500 milljónum kr. á ári. Með gagnkvæmri niðurfellingu og lækkun tolla skapar samningurinn forsendur fyrir auknum viðskiptum milli landanna.

Virðulegi forseti. Í umræðum um tillöguna á þinginu og í utanríkismálanefnd á 146. löggjafarþingi var talsvert fjallað um stöðu mannréttindamála á Filippseyjum í kjölfar þess að Rodrigo Duterte tók við embætti forseta landsins í júní 2016. Rétt er að taka fram að í formálsorðum samningsins er áréttuð skuldbinding samningsríkjanna til að styðja við lýðræði og mannréttindi. Þá er með fríverslunarsamningnum komið á sameiginlegri nefnd landanna og þó að þeirri nefnd sé fyrst og fremst ætlað að fjalla um framkvæmd samningsins væri einnig unnt að taka mannréttindamál upp á þeim vettvangi. Í þessu sambandi má nefna að íslensk stjórnvöld hafa undanfarin ár haldið uppi gagnrýni á stjórnvöld á Filippseyjum á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu Þjóðanna, m.a. þegar Filippseyjar komu til skoðunar í svokallaðri jafningjarýni á árinu 2017. Var eftir því tekið við lokaafgreiðslu þeirrar rýni í september 2017 að Ísland talaði í nafni 39 ríkja og kom skýrt á framfæri gagnrýni til þarlendra ráðamanna. Ég tók málefni Filippseyja enn fremur upp í ávarpi mínu í mannréttindaráðinu í febrúar 2018 og ítrekaði að Filippseyjar þyrftu að heimila eftirlitsheimsóknir erindreka Sameinuðu þjóðanna. Ég ítrekaði þetta á tvíhliða fundi með utanríkisráðherra Filippseyja við það tækifæri.

Litið er svo á að almennt verði gagnrýni vegna stöðu mannréttinda haldið uppi á vettvangi stofnana Sameinuðu þjóðanna, fremur en á vettvangi EFTA. Að auki má færa rök fyrir því að frjáls viðskipti milli ríkja geti stuðlað að úrbótum í lýðræðis- og mannréttindamálum. Að lokum skal geta þess að hin EFTA-ríkin hafa fullgilt fríverslunarsamninginn og sama á við um Filippseyjar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar.