149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[16:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja ráðherrann út í að tvennt. Hann talaði um að við þyrftum að vera samkvæm sjálfum okkur sem ríki og ég held að það skipti miklu máli. Þess vegna á ég dálítið erfitt með að fá það til að vera samkvæmar staðreyndir, eins og ráðherrann sagði rétt áðan, að framganga Íslands gagnvart Filippseyjum hafi skipt sköpum varðandi það að við kæmum til álita sem ríki inn í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna, en síðan sé einhver ósamkvæmni í því að á sama tíma myndum við kannski leggja til hliðar fríverslunarsamning við það ríki meðan mannréttindamál eru í ólestri eins og þau eru í dag. Mér finnst nefnilega fullkomin samkvæmni í því að ef við segjum A þá gerum við B. Við segjum að það hvernig við komum fram við Filippseyjar hafi skipt sköpum um það að við komumst inn í mannréttindaráðið og þá fylgir því að við erum ekki að rétta harðstjóranum þá gulrót sem felst í fríverslunarsamningi.

Síðan er það stóra spurningin: Til hvers erum við þá með þetta ákvæði í formálsorðum fríverslunarsamninga ef það er ekkert bit í því? Við erum búin að segja A nefnilega, svo að ég noti það aftur, eins og ráðherrann kom inn á, við erum búin að árétta skuldbindingu okkar við að styðja við lýðræði, réttarreglur og mannréttindi, og þá hljótum við að þurfa að segja B, sem er það að þegar lýðræði og mannréttindum er ýtt algerlega út af borðinu áður en búið er að fullgilda samninginn, þá geti sá samningur bara beðið fullgildingar þar til þau mál eru komin í lag.