149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[16:57]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég hef nokkrar spurningar fyrir hv. þingmann. Í fyrsta lagi spyr ég hvort flutningsmenn hafi áætlað kostnað vegna þessa. Það er auðvitað ljóst að þegar land er tekið eignarnámi eftir miklar fjárfestingar og vinnu mun það kosta ríkið mikið, mögulega tugi milljarða, og ég velti fyrir mér hver forgangsröðun hv. þingmanna sé í því samhengi.

Ég velti líka fyrir mér hvort það sé ekki rétt hjá mér að Víkurkirkjugarður hafi verið lagður niður formlega og afhelgaður árið 1838. Einnig er það svo, fyrst þingmaður talaði um áhrif umferðar á þessu svæði og í kringum þinghúsið, að umferð hópbifreiða á þessari götu hér fyrir aftan er bönnuð, ef mig minnir rétt, þannig að við munum auðvitað ekki finna fyrir breytingu þar á.

Einnig langar mig að nefna að ég var að skoða deiliskipulag Reykjavíkurborgar og þar er einmitt fjallað um þessa skuggamyndun sem hv. þingmanni varð tíðrætt um, að þetta myndi skemma síðdegissól hér á Austurvelli og fleira. En mér sýnist á deiliskipulaginu það vera rangt, þar sem það var metið svo að það hefði engin áhrif á síðdegissólina eða önnur áhrif, skuggamyndun væri sem sagt lítil sem engin.

Ég vonast til að þingmaðurinn geti svarað mér til um kostnaðinn og hvort þetta sé forgangsröðun hv. þingmanna. Síðan kem ég kannski í seinna andsvari mínu að öðru hér í nágrenninu.