149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:02]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil enn og aftur þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég verð að lýsa undrun minni yfir því að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins komi hér upp í ræðustól og ætli sér að verja það að grafreitir Reykvíkinga séu lagðir undir hótelbyggingar. Öðruvísi mér áður brá, vil ég bara segja við hv. þingmann. Að leggja grafreiti Reykvíkinga þar sem síðast var grafið á síðasta áratug 19. aldar undir lúxushótel finnst mér fráleitt og fjarstæða. Ég held að hv. þingmaður ætti frekar að styðja þessa tillögu okkar.

Og það að velta málinu upp úr því hvort skuggi sé lítill eða mikill finnst mér algjört aukaatriði. Hótelið nær lengra út á Kirkjustræti en áður var og mun mynda skugga. Hversu mikill hann verður ætla ég ekki að fjargviðrast um. En þegar leggja á grafir forfeðra okkar undir hótelbyggingar hefði ég nú haldið að Sjálfstæðisflokkurinn væri sá flokkur sem fyrstur myndi styðja að koma í veg fyrir það.