149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:17]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að svara einni af spurningum mínum. Ég ætla að spyrja aftur: Hafa þeir hv. þingmenn sem leggja þetta mál fram einhverja heildarsýn um aðra starfsemi hér í kring? Hvernig sjá þeir það fyrir sér og af hverju bara þetta? Ég fékk heldur ekki svar við spurningu minni í fyrri andsvörum um það hvort ekki væri búið að afhelga garðinn 1838. Hluti garðsins er friðaður og ég velti fyrir mér hvort menn hafi kynnt sér málið nógu vel.

Og talandi um kostnað: Þó að maður leiði hugann að því hvað sé þarna undir — minjar munu auðvitað ekki spillast né glatast — velti ég því fyrir mér hvort þingmenn séu tilbúnir til að forgangsraða almannafé í tugmilljarða króna skaðabætur til þess eins að stoppa þessa byggingu sem er langt á veg komin og náðst hefur gott samkomulag um og niðurstaða með því að færa innganginn.

Fyrst og fremst vil ég fá svar við því hvort hv. þingmenn hafi heildarsýn um svæðið í kringum Alþingi og hvort þeir ætli að taka eignarnámi fleiri hús og fyrirtæki, hótel, bari, veitingastaði og annað sem liggur hér að þinginu. Mér finnst það áhugaverð forgangsröðun í öllum þeim málum sem liggja hér fyrir löggjafarvaldinu.