149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:37]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að fara í sérstaka ræðu en ég get ekki gert annað eftir að ýmsir hv. þingmenn reyndu ítrekað að gera mér upp skoðanir og segja að skoðanir mínar væru stundarbrjálæði eða einhver mistök Sjálfstæðismanns. Ég get ekki túlkað það öðruvísi en svo að verið sé að reyna að gera lítið úr því sem ég hef hér að segja og hver skoðun mín er á málinu.

Mig langar að fara yfir nokkur atriði aukalega sem oft nást ekki í andsvörum. Mig langar að byrja á að minnast á það að á Landssímareitnum er verið að gera upp gamla Kvennaskólahúsið, Aðalstræti 7 og Vallarstræti 4, auk þess sem gamli Sjálfstæðissalurinn verður gerður upp í upprunalegri mynd. Það verður ekki annað séð en verið sé að koma til móts við sjónarmið fortíðar og framtíðar.

Það er ekki skortur á mínum menningarlega metnaði að ég horfi ekki nægjanlega til fortíðar. Það er aldeilis ekki skortur á menningarlegum metnaði að horfa bæði til fortíðar og framtíðar. Að segja mig hlaupast undan menningar- og söguarfi Íslendinga í andsvörum, þegar ég spyr að því er ég taldi málefnalegra spurninga sem ekki er svarað í greinargerð þessa máls, er fráleitt.

Við berum okkur gjarnan saman við önnur lönd, Íslendingum finnst það ekki leiðinlegt að borg okkar líkist borgum í kringum okkur, að við fylgjum góðum fordæmum og lærum af öðrum þjóðum. Það sama má gera í þessu máli. Í borgum sem við berum okkur gjarnan saman við og viljum líkjast tvinnast nefnilega saman saga og menning við uppbyggingu fyrir íbúa hverju sinni. Ég sé ekki betur en að á þessum reit hafi beggja sjónarmiða verið gætt.

Flutningsmönnum hefur orðið tíðrætt um fortíðina en þá virðist skorta alla framtíðarsýn. Maður veltir aðeins fyrir sér umræðunni um byggingu hótelsins hérna megin, líkt og hótel er öðrum megin, austan við garðinn sem er nú þegar friðaður, og ég veit ekki alveg hvort umræðan snýst meira um ferðatöskur eða nálægð við friðhelgan stað. Það er því mjög ánægjulegt að um Fógetagarðinn, sem hefur þegar verið friðaður og er mjög mikilvægur í íslenskri menningu, stendur til að efna til hönnunarsamkeppni. Vonandi verður sú niðurstaða til að gera sögu og menningu svæðisins hátt undir höfði. Hér held ég að geti spilað saman svo skemmtilega virðing fyrir sögunni og menningunni á sama tíma og sú uppbygging sem farin er af stað.

Það má kannski halda því til haga, af því að ég fékk ekki skýr svör við spurningu minni áðan, að Minjastofnun hafi samþykkt að minjar væru fjarlægðar á lóðinni og þar eru engar minjar lengur. Það er búið að friða Fógetagarðinn. Þessi uppbygging kemur þar við hliðina líkt og önnur uppbygging sem er í nálægð við Alþingisreitinn. Ég held að við eigum að gæta þess að hlúa að menningunni og sögunni en á sama tíma að þora að hafa framtíðarsýn, sem mér sýnist skorta algerlega í þessu máli.