149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:49]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það er svolítið skrýtið að hlusta á þann hola hljóm sem er í málflutningi þingmanna Sjálfstæðisflokksins, mér finnst það holur hljómur í ljósi sögunnar, eins og ég las upp úr greinargerðinni áðan. Það eru miklir möguleikar með það hvernig ríkið gæti nýtt þetta hús. Það þarf bara að vera með frjótt hugmyndaflug í sambandi við það.

Ég verð að hnykkja á því að mér finnst virðingu fyrir reitum eins og kirkjugarðar eru fara hnignandi. Ég hef séð það í þáttum í sjónvarpinu og heyrt það í útvarpinu, það er verið að fjalla um þetta mál og mér finnst fólk oft láta sér það í léttu rúmi liggja hvernig um þessi svæði er gengið. Þetta hefur verið látið reka á reiðanum, ekki tekin afstaða til þess að gera gangskör í þessu máli í eitt skipti fyrir öll með virðingu þessa kirkjugarðs fyrir augum eins og annarra kirkjugarða vítt og breitt um landið. Fólkið sem er jarðsett í þessum görðum hefur byggt upp landið og við eigum að sýna því fulla virðingu.

Við erum alltaf að tala um það hér á Alþingi að halda virðingu Alþingis. Þá hljótum að þurfa að tala um virðingu fyrir því sem liðið er og eru þá menjar til að krossa sig yfir.

Ég þakka fyrir þessa umræðu og þetta mál er hið besta mál.