149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

réttur barna sem aðstandendur.

255. mál
[18:25]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir framsöguna og fyrir þetta frumvarp sem ég tel til mikilla bóta og er bara mjög ánægð með frumvarpið sem slíkt.

En það sem mér datt helst í hug að gæti orðið vandkvæðum bundið er að upplýsingar berist á milli aðila, þ.e. heilbrigðisstarfsmanna og skóla, leikskóla og þeirra sem þurfa að vita um málið. Bæði geta upplýsingarnar bara hreinlega ekki borist til heilbrigðisstarfsmanns því að sum af þessum veikindum, og jafnvel langvinnum veikindum, eru feimnismál og jafnvel mikil skömm. Það er kannski ekkert verið að tilkynna þau á neinum vígstöðvum.

Í annan stað held ég að við þurfum líka að athuga vel allt í sambandi við trúnaðarskyldu. Allir heilbrigðisstarfsmenn eru bundnir trúnaði. Það þyrfti eitthvað, held ég, að lagfæra í öðrum lögum varðandi þetta leyfi til að bera þessar upplýsingar á milli stofnana. Það er t.d. skylda starfsmanna leikskóla að tilkynna til barnaverndar ef þau sjá að pottur er brotinn, hafa áhyggjur af barni en ég veit að það er tregða í þessu kerfi.

Ég held að vanda verði mjög til verka við útfærsluna á þessu þannig að þetta hafi raunverulegt gildi og hagur sé af þessu fyrir barnið eða börnin. Ég held að það væri líka affarasælast að skilgreina og skýra sem mest í frumvarpinu sjálfu frekar en að láta það eftir framkvæmdarvaldinu í reglugerðum varðandi útfærslu.

Ég fagna þessu og vona að velferðarnefndin taki þessar athugasemdir mínar til greina og skoði þetta frekar því að ég hef áhyggjur. Þetta er góð hugsun, góð hugmynd, frábært frumvarp. En ég held að það verði ekki auðvelt að hrinda þessu í framkvæmd þannig að markmiðunum verði náð.