149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

réttur barna sem aðstandendur.

255. mál
[18:28]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og góðar ábendingar. Ég get tekið heils hugar undir hennar áhyggjur og áherslu á mikilvægi þess að upplýsingarnar gangi á milli og að þetta gangi upp. Við munum að sjálfsögðu fjalla um þetta í hv. velferðarnefnd en ég vildi samt koma hingað upp og benda á að hugsunin hér er sú að við setjum vissar skyldur á aðila til að tala saman. Það er innbyggð í frumvarpið lagaleg skylda að upplýsa á milli, til heilsugæslunnar, innan heilbrigðiskerfisins, og þaðan yfir á skólastigin. Það er líka gert ráð fyrir að það sé gert í samráði við nánustu fjölskyldu og annað slíkt og gert í samræmi við persónuverndarlög. Þessi sérlöggjöf auðveldar samskiptin með því að leggja þessa skyldu á herðar þessum aðilum, að þeir upplýsi hver annan. Þetta atriði er mjög stórt atriði innan alls barnaverndarkerfisins.

Nú hefur hæstv. félags- og barnamálaráðherra sett af stað vinnuhóp um málefni barna þar sem ég á sæti. Þar er þetta einmitt umræðan, hvernig upplýsingar sem fara milli heilsugæslu, skóla og annara aðila geti verið meira á sama stað til þess að sú þjónusta sem barnið þarf á að halda skili sér og hægt sé að bregðast við þeim aðstæðum sem barnið er í.

Ég vildi bara koma hingað upp og taka undir þessa mikilvægu ábendingu og benda á að við erum að reyna að ganga eins langt og við getum í lögunum (Forseti hringir.) sjálfum og við sjáum svo hvernig þessari vinnu vindur fram.