149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

réttur barna sem aðstandendur.

255. mál
[18:36]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka góð svör og ég er fullviss um að áframhaldandi meðferð málsins gerir það bara enn betra.

Mig langaði kannski aðeins að nefna, fyrst ég fæ að koma upp aftur, að ég veit að SÁÁ hefur verið með sálfræðinga á sínum snærum í nokkur ár, átta ár núna, þar sem þeir bjóða börnum upp á sálfræðiaðstoð. Þar eru gríðarlegir biðlistar fyrir börn og unglinga sem þurfa og vilja aðstoð vegna langveikra foreldra. Það er full þörf á þessu út af öllum þeim ástæðum sem tíndar eru til í frumvarpinu, þ.e. þetta geta verið langvinn veikindi, andlát, þetta geta verið geðsjúkdómar. Þetta getur verið hvað sem er. Auðvitað eigum við að láta börnin njóta vafans og að þau fái þá þjónustu sem þau þurfa. Ég bind vonir við að áframhaldandi vinna leiði af sér bestu mögulegu lausnir fyrir börnin okkar.