149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

réttur barna sem aðstandendur.

255. mál
[18:37]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil ekki lengja umræðuna um of. Ég vil leyfa mér að þakka hv. flutningsmanni Vilhjálmi Árnasyni fyrir að leggja þetta gagnmerka frumvarp fram, sem er löngu tímabært. Það hefur verið lagt fram áður og því miður fékk það ekki framgang en vonandi gerist það nú.

Okkur er umhugað um framtíð barnanna okkar og að við getum búið þeim sem þroskavænlegastar uppeldisaðstæður. Það vill auðvitað verða misbrestur á því og margt hendir á langri leið uppalenda sem leggja af stað í góðri trú og af fullum metnaði og leitast við að nýta sína færni til uppeldisstarfa. Sem betur fer lánast það nú í langflestum tilvikum.

Hv. þm. Álfheiður Eymarsdóttir, hefur fjallað um þetta frá sínum sjónarhóli sem leikskólakennari og þekkir þessar aðstæður, þekkir hvaða kraftar oft leysast úr læðingi og hvaða truflanir verða oft, hvaða snurður hlaupa á þráðinn þegar upp koma vandkvæði. Það er tillitssemi við foreldrana og tillitssemi við börnin. Hvenær erum við að ganga erinda þeirra og hvenær erum við að ganga erinda foreldranna? Þetta veldur oft vandkvæðum og þetta eru mjög krefjandi aðstæður eins og nefnt hefur verið, bæði gagnvart heilbrigðisstarfsfólki og þeim sem vinna að uppeldisstörfum.

Þetta er auðvitað umræða sem við höfum tekið að nokkru leyti inni í velferðarnefnd, upplýsingaflæðið þegar um hagsmuni barna er að ræða. Við höfum lent í tilvikum þar sem bornar eru brigður á það að hagsmunir barna séu hafðir að leiðarljósi. Eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom inn á áðan byggist það á gamalli hjátrú eða fordómum um að barnaverndarnefndir séu öfl hins illa og vilji gera foreldrum og börnum einhvern miska. Þetta eru krefjandi verkefni sem barnaverndarnefndir hafa þurft að ganga í gegnum í gegnum tíðina. Þetta var hér áður fyrr áhugafólk og fullt af góðum vilja. Þessir aðilar voru dæmdir harkalega en nú erum við komin með þetta í miklu traustara umhverfi og leyfi ég mér að segja faglegra.

Til þess að við getum búið um hnútana eins og þessar breytingar gera ráð fyrir þarf að gera allnokkrar breytingar á nokkrum lögum og það verður spennandi viðfangsefni að fást við það innan velferðarnefndar og taka þá umræðu sem nauðsynleg er.

Hæstv. félags- og barnamálaráðherra hefur tekið málefni barna í sínar hendur fastari tökum og ætlar að hafa þau sem áhersluþátt. Það er vel. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason nefndi að það væri starfandi hópur sem væri sérstaklega að gefa gaum að því hvernig við getum með öruggum hætti fleytt á milli þeirra aðila sem fjalla um málefni og hagsmuni barna nauðsynlegum upplýsingum til að gæta að velferð barna. Vonandi fáum við að sjá niðurstöðu við fyrstu hentugleika en það er nauðsynlegt að vanda vel til verka og gefa sér góðan tíma. Kannski að þetta innlegg, þetta frumvarp, verði eitthvert leiðarljós eða haft til viðmiðunar í þeirri vinnu.