149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Nú kemur fyrir, og sem betur fer er það oft, að gleðifregnir berast úr atvinnulífinu. Í morgun greindi Hagstofan frá því að á árunum 2014–2017 voru 1.608 fyrirtæki talin í örum vexti á þessu tímabili. Ör vöxtur þýðir að meðaltali 10% vöxtur tekna á hverju ári. Það eru 977 fyrirtæki þegar kemur að fjölgun starfsmanna á þessum árum. Þetta eru gleðifréttir sem við eigum að fagna og þegar við sjáum að þessi fyrirtæki veita alls 33.000 einstaklingum vinnu eigum við hér í þessum sal, eins og ég hef nú stundum reynt að ítreka, að velta fyrir okkur hvernig við getum lyft þessum fyrirtækjum enn frekar upp. Hvað getum við gert hér, löggjafinn, til að gera það fýsilegra að stofna fyrirtæki, að ná þeim árangri að eiga fyrirtæki og reka fyrirtæki sem eru í örum vexti, 10% vexti að meðaltali á hverju ári?

Skattkerfið spilar þar auðvitað stóra rullu, regluverkið allt líka, ekki síst eftirlitskerfið. Og þegar við lesum svona góðar og jákvæðar fréttir um fjölgun fyrirtækja í örum vexti eigum við að spyrja okkur: Getum við ekki gert betur? Getum við ekki með einum eða öðrum hætti hér í þessum sal ýtt undir og sagt við frumkvöðlana og við atvinnurekendur: Við skulum hjálpa ykkur, við skulum stuðla að því að þið náið enn frekari árangri?