149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er merkileg gerjun, sem vert er að fylgjast vel með, í stjórnmálum á Bretlandseyjum þessa dagana. Á hana var minnst lauslega við síðustu ræðu þess þingmanns sem hér stendur í gær en þá höfðu sjö þingmenn Verkamannaflokksins sagt sig úr honum og stofnað sérstakan þingflokk og boðað stofnun nýs stjórnmálaflokks. Nú hefur enn einn hætt í Verkamannaflokknum en það sem er merkilegra er að þrjár þingkonur úr Íhaldsflokknum breska hafa bæst í þann hóp.

Það er dálítið merkilegt að velta fyrir sér hvernig á þessu stendur. Auðvitað er mjög nærtækt að benda á Brexit-vandræði Breta en það er líka staðreynd að Verkamannaflokkurinn hefur færst langt til vinstri undir stjórn Corbyns og hefur verið mjög tvístígandi í Evrópumálunum og síðan hefur komið í ljós eða a.m.k. eru ásakanir í hans garð um gyðingaandúð. Á sama tíma hefur Íhaldsflokkurinn færst til hægri og orðið æ líkari UKIP, breska sjálfstæðisflokknum. Anna Soubry þingkona, sem nú hefur sagt skilið við Íhaldsflokkinn, sagði fyrr í dag á blaðamannafundi, í lauslegri þýðingu minni, með leyfi hæstv. forseta:

„Þú gengur ekki í flokk til að berjast við hann. Bardaganum er lokið og andstæðingurinn stendur uppi sem sigurvegari. Harðlínu hægri mennirnir hafa tekið flokkinn yfir. Þar fer fremst í flokki hin undarlega sveit öfgafullra ESB-andstæðinga. Þeir ráða nú lögum og lofum í breska Íhaldsflokknum.“

Þetta er afar fróðleg þróun og sýnir glöggt að spenna fer vaxandi í stjórnmálunum og öfgarnar aukast. En ekki er laust við að hugurinn hvarfli hingað heim og til þeirrar þróunar sem er og hefur verið í íslenskum stjórnmálum. Líkindin með vegferð hins íslenska Sjálfstæðisflokks og hins breska Íhaldsflokks eru auðvitað (Forseti hringir.) sláandi. Hið ánægjulega er þó að svigrúm verður til fyrir alþjóðlega sinnað frjálslynt fólk að hasla sér völl, og það gerum við í Viðreisn.