149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Eins og ekki hefur farið fram hjá neinum höfum við á undanförnum vikum og jafnvel mánuðum rætt svolítið um fjármögnun flýtiframkvæmda í samgöngukerfinu. Það er í sjálfu sér af hinu góða, það er mikilvægt mál fyrir framan okkur. Hæstv. samgönguráðherra viðraði hugmyndir í vikunni, sem hafa svo sem komið fram hjá mér líka og fleiri þingmönnum í málflutningi, um að þetta sé ekki eina leiðin til að fara í þessar framkvæmdir. Hann nefndi arðgreiðslur frá fyrirtækjum í eigu ríkisins. Við, margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, höfum nefnt sölu eigna. Einn þáttur í þessari leið varð niðurstaða umhverfis- og samgöngunefndar, að engin leið byggir eins mikið á þátttöku erlendra ferðamanna og það að fara í veggjöld. Það er reiknað með að allt að 40% af kostnaðinum við uppbygginguna greiðist af umferð erlendra ferðamanna.

Ég tel að út frá því sé mjög mikilvægt að við horfum á þessa leið til uppbyggingar á flýtiframkvæmdum í samgöngukerfinu, ekki varanlegan skatt heldur tímabundin þjónustugjöld sem lögð eru á til þess að standa straum af kostnaði líkt og gert var við Hvalfjarðargöngin. Síðan er innheimtu hætt þegar framkvæmdir hafa verið greiddar upp.

Sé að skapast aukið svigrúm í ríkisfjármálum umfram það sem birtist okkur í tillögu ríkisstjórnarinnar í gær um 18.000 milljónir sem yrðu notaðir í skattkerfisbreytingar til þeirra sérstaklega sem minna mega sín í samfélaginu tel ég að við eigum að lækka frekar varanlega skatta. Eðlilegast í því samhengi væri að afnema bifreiðaskattinn sem fyrst var lagður á 1988 og var síðan hækkaður 1990. Það væri varanlegt afnám skatta eins og þegar hæstv. fjármálaráðherra afnam varanlega alla tolla og öll vörugjöld af vörum. Með því (Forseti hringir.) að taka slíka ákvörðun myndum við hækka framlag ríkisstjórnarinnar til hinna vinnandi stétta úr 18.000 milljónum í 25.000 milljónir vegna þess að bifreiðagjöldin eru um 7 milljarðar á ári.