149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[16:45]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum þar sem flutningsmenn eru hv. þingmenn Guðjón S. Brjánsson, Haraldur Benediktsson og Halla Signý Kristjánsdóttir, öll hv. þingmenn úr Norðvesturkjördæmi.

Ég kem beint af flugvellinum inn í þessa umræðu. Ég er mjög ánægður með að þessi tillaga sé komin fram, enda sjálfur ættaður af Vestfjörðunum og hef fylgst mjög vel með þar, flogið mikið um þessa flugvelli og þekki aðstæður ágætlega.

Ég verð að hrósa greinargerðinni með plagginu. Hún er mjög góð og tekur vel á efninu. Ég ætla rétt að hlaupa í gegnum nokkra punkta sem koma fram í henni. Það er rétt sem kemur fram, að vellirnir sem voru allt að 25 talsins á sínum tíma voru lagðir og byggðir upp vítt og breitt um Vestfirðina. Það fór eftir aðgengi að efni og hvar væri hægt að leggja brautir, eins og skemmtileg braut í Súgandafirðinum ber vott um og ýmsar skemmtilegan aðstæður, en þeir voru aldrei almennilegir blindflugsflugvellir. Þessir vellir þurftu á sjónflugsskilyrðum að halda og þar með nýttust fæstir vel.

Þess vegna er næsta vers í málinu hvernig við tryggjum aðflugið inn að völlum ef við finnum góða staðsetningu fyrir flugvöll á Vestfjörðum. Svo sannarlega hefur verið mikil umræða um það síðustu ár eins og með Ísafjarðarflugvöll þar sem eru erfiðar aðstæður og lítið pláss. Þar þurfa menn að fara í sjónflugi inn Skutulsfjörðinn og oft í erfiðum aðstæðum. Eins og kemur fram í greinargerðinni er lagt til að gera veðurfarsathuganir við norðanvert mynni Skutulsfjarðar.

Það sem ég myndi leggja til að væri áhersla á í þessu dæmi er að við Íslendingar þyrftum að verða aðilar að Geimvísindastofnun Evrópu, ESA, og EGNOS-gervihnattaleiðsögunni. Ég held nefnilega að Vestfirðir gætu grætt alveg gríðarlega á því ef við kæmumst inn með drægi, gervihnattaleiðsögu, yfir Vestfirði. Í dag fáum við þetta yfir á austurhluta landsins. Við getum ekki tekið það alveg niður í harðagrjót en fyrir mánuði, í byrjun janúar, var ákveðið aðflug á Húsavík sem byggir á gervihnattaleiðsögunni. Það er verið að skoða Akureyri, Egilsstaði og Hornafjörð og væntanlega þarf að skoða þennan austari hluta landsins en drægið nær ekki yfir vestari hluta landsins. Þetta eru 26 gervihnettir sem byggjast á Galileo-kerfinu. Við erum bara þannig staðsett að þegar við ætluðum að fara inn í Geimvísindastofnunina 2008, rétt fyrir hrun, drógum við til baka umsókn okkar um að komast inn í hana. Á sama tíma fóru Norðmenn inn í hana og nú er búið að koma upp gervihnattaleiðsögu yfir öllum Noregi. Finnarnir hafa gert það á síðustu árum í gegnum Norðurskautsráðið, þeir lögðu mikla áherslu á þessi mál og hafa á allra síðustu árum náð að bæta gervihnattaleiðsögu í kerfið. Það hefur gríðarlega mikið að segja en við erum svolítið á eftir og þetta myndi nýtast okkur í vísinda- og rannsóknastörfum og mörgu öðru í tækniframförum, fjórðu iðnbyltingunni og slíkum hlutum.

Þarna kristallast enn á ný í því máli sem hér er til umræðu hvað akkúrat þetta gæti gert mikið eins og á Vestfjörðunum og bara almennt fyrir öryggi í landinu þar sem við getum þá sett upp aðflug eins og fyrir Landhelgisgæsluna. Nýju þyrlurnar verða með slíkum búnaði sem gæti nýtt sér gervihnattaleiðsöguna. Þá breytast svolítið öryggismálin í samfélaginu þar sem þyrlurnar gætu búið til aðflug vítt og breitt um landið þar sem engin aðflug eru í dag. Bara gervihnettir eru uppi, aðflugin eru byggð á þeim, það er enginn búnaður á jörðu niðri. Þetta verður miklu einfaldara ferli og ódýrara að gera þetta. Þetta finnst mér eiginlega vera stóra málið fyrir Vestfirði. Ef gerð yrði heildarúttekt á staðarvali fyndist mér hún þurfa að koma inn í þá umræðu til að við gætum hámarkað þetta mál. Ég hef talað um það hér síðan ég byrjaði á Alþingi og sagt löngum áður að við þyrftum að komast inn í Geimvísindastofnun Evrópu til að við gætum byggt á þessari tækni. Ég hef ekki skoðað það sérstaklega með Vestfirði eða heyrt neitt hvað við gætum gert með Þingeyrarflugvöll og Staffell miðað við að við hefðum gervihnattaleiðsöguna. Aðflugin verða allt öðruvísi. Það er hægt að fljúga ferla í beygjum og annað á milli fjalla og dala og í fjörðum landsins. Það væri mjög áhugavert eins og með Þingeyrarflugvöll bara að fá það fram í þessu samhengi.

Auðvitað þekkjum við það að við Þingeyrarflugvöll er helsti fjallgarður Vestfjarða, Kaldbakurinn og það sem þar er. Þetta væri stóra málið sem ég myndi vilja sjá bætt við þessa þingsályktunartillögu vegna þess að ég er mjög hrifinn af tillögunni um að þetta verði skoðað vel. Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt — ég kem svo illa undirbúinn í þessa umræðu beint af flugvellinum að ég gat t.d. ekki tekið saman fjölda sjúkrafluga á Vestfjörðum á síðustu árum. Ég gerði myndrænt plagg um það 2015 en get bara sagt að ég man ekki alveg töluna. Þau eru töluvert mörg. Öll alvarlegustu tilvik landsins fara til Reykjavíkur, á Landspítalann. Landspítalinn er með 10% erfiðustu tilvikanna á landsvísu, hvort sem það eru alvarleg hjartaáföll, hjartasjúkdómar, heila- og taugaskurðlækningar, alvarlegir áverkum eða fyrirburar. Þess vegna þurfum við að tryggja þetta sem allra best og þess vegna held ég að gervihnattaleiðsagan sé eitt af því sem við þurfum að skoða vel í þessu samhengi.

Varðandi það sem kemur fram um stærð flugvéla, talað er um 70–100 sæta vélar, held ég eins og staðan er í dag, hvað sem framtíðartæknin segir okkur, að menn ættu bara að skoða miðlungsþotur, 150 sæta vélar, hvað þyrfti að gerast til þess að möguleiki væri að lenda slíkum vélum.

Vegna fraktflutninga sem væru vegna sjókvíaeldis á suðurfjörðunum þyrfti að vera með vélar sem eru svipaðar að stærð og 150 sæta millilandaflugvél, vél sem verður þá a.m.k. að geta borið 16–20 tonn af ferskum fiski, laxi í þessu tilviki. Sú burðargeta þarf þá að vera til staðar. Burðargetu brauta hefur oft vantað í umræðuna þegar við erum að ræða flugvelli landsins. Hún er mikilvæg í þessu tilviki og hvernig það allt saman er.

Síðan eru gríðarlegir möguleikar í ferðaþjónustunni og við þurfum að sjá hvaða möguleikar eru þar. Ég held að við séum ekki að fljúga þriggja, fjögurra, fimm tíma flug með 70–100 sæta vélum. Ég held að það sé frekar óraunhæft. Við þyrftum að skoða stærri vélar og þá þyrfti væntanlega að skoða þær í samhengi við fraktina. Þá þyrfti væntanlega brautir sem væru 2.200–2.500 metra langar sem við værum að skoða í þessu hlutfalli.

Svo tek ég heils hugar undir tillögu um veðurfarsathuganirnar á þeim þremur stöðvum sem lagðar eru til í tillögunni, að þau svæði séu skoðuð vel upp á nýtingarhlutfall. Nýtingarhlutfallið er alltaf lykilatriði í flugrekstri.

Ég sé að tíminn er farinn að styttast. Ég vil tala aðeins um Færeyjar varðandi gervihnattaleiðsöguna. Þannig háttar til að tekin var upp gervihnattaleiðsaga hjá Atlantic Airways, færeyska flugfélaginu, 2012 þegar það tók nýjar vélar í notkun. Félagið var kannski með 90% nýtingu á vellinum en þegar gervihnattaleiðsagan var tekin, og þetta eru nýjustu fréttir sem maður er að heyra af því, fór nýtingin í 99% á Vágaflugvelli, erfiðum flugvelli, sem er gott dæmi um hversu mikilvæg gervihnattaleiðsagan er og að fá hana inn í þessa umræðu. Hún hefur stóraukist þannig að eftir að SAS, samkeppnisaðilinn, fór að fljúga í samkeppni við Atlantic Airways í Færeyjum í vetur ákvað SAS að fara sömu leið og setja upp þennan búnað, þjálfa sína flugmenn til að framkvæma sömu aðflug vegna þess að félagið sá að það gat aldrei verið í neinni samkeppni við heimafélagið, Atlantic Airways, nema það væri með þetta í lagi.

Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt atriði í heildarsamhengi og ég held að gríðarlegir möguleikar séu akkúrat í þessari gervihnattaleiðsögu. Það er það sem ég sé helst að vanti inn í tillöguna.

Rétt í lokin verð ég að segja að aldrei hefur verið unnið jafn mikið að flugmálum á vegum stjórnvalda eða þingsins en á undanförnum tveimur árum. Það er nýkomin út skýrsla og ég var í formennsku fyrir starfshópi að skoða málin um íslenskt flug. Það er verið að vinna flugstefnu fyrir Ísland. Það er nýtt. Og í ríkisstjórnarsáttmálanum er talað um mótun eigendastefnu fyrir Isavia.

Ég verð að koma aftur í ræðustólinn ef ég fæ einhver andsvör, ég sé að tíminn er liðinn.