149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

kjaraviðræður.

[10:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega dapurlegt ef hæstv. fjármálaráðherra skilur ekki hvað ég er að tala um. Ég er eingöngu að tala um þá sem eru hér í lægstu þrepunum, um þá sem eru með undir 300.000 kr. útborgað, sem fá útborgað 220.000–240.000 kr. Ég er ekki að tala um kennara og sjúkraliða. Ég er að tala um þá sem skúra gólfin undir okkur og þá sem eru í lágtekjuþjónustustörfum. Ég er að tala um verkafólk á lúsarlaunum sem nær ekki endum saman og á ekki mat á diskinn fyrir börnin sín eftir 20. hvers mánaðar. Ég er að tala um þann hóp.

Þau lykilhugtök sem hér eru endalaust notuð, kjarajöfnuður og kaupmáttur, eru nákvæmlega lykilhugtök sem mér finnst hæstv. fjármálaráðherra eiga að gera svolítið mikið úr, sérstaklega hugtakinu kaupmáttur. Það skiptir engu máli þótt við hækkum laun hjá einhverjum um 100 milljónir ef það kostar milljarð að lifa. Það er lélegur kaupmáttur. Það er eingöngu verið að tala um sanngirni, að ná endum saman, að allir fái að lifa með reisn í samfélaginu og taka þátt í því góðæri sem við höfum hingað til státað okkur af.