149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

hætta á verkföllum og leiðir til að forðast þau.

[10:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég get farið yfir það sem ASÍ sagði í áliti sínu í gær. Þar segir:

„Stjórnvöld virðast ekki ætla að styrkja aðra tekjustofna ríkisins samhliða breytingunni svo sem með upptöku hátekjuskatts, auðlegðarskatti, hækkun fjármagnstekjuskatts eða afgjaldi fyrir auðlindanýtingu. Breytingin mun því þýða að minna verður til ráðstöfunar til brýnna úrbóta, t.d. í velferðarkerfinu og í samgöngumálum.“

Hér er talað um hátekjuskatt og hækkun fjármagnstekjuskatts. Það kemur einmitt fram í leiðaragrein The Economist um heildarendurskoðun skattkerfisins fyrir 21. öldina að það sé nauðsynlegt að færa sig meira yfir í pógressífan tekjuskatt, jafnvel neikvæðan tekjuskatt þar sem ríkið greiðir manni út ef maður uppfyllir ekki lágmarksviðmiðin. Já, The Economist er að tala um þetta vegna þess að ástandið er þannig, við stöndum frammi fyrir svo alvarlegum kringumstæðum og óánægju.

Er óánægjan réttmæt hérna á Íslandi? Það er talað um kaupmátt. Kaupmátturinn jókst og það er rétt, hann jókst mest hjá hinum tekjuminni, en hann er étinn upp með hækkun á leigu. Leigan hefur farið upp á sama tíma, tvöfalt, þannig að ástandið (Forseti hringir.) er verra fyrir svo marga, þannig að það er innstæða fyrir óánægju.