149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

skattbreytingatillögur í tengslum við kjarasamninga.

[11:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þá grafalvarlegu stöðu sem uppi er í kjaraviðræðum nú um stundir og stefnir í að viðræðum verði slitið milli aðila í dag. Það er dálítið sorglegt að horfa upp á viðbrögð og útspil ríkisstjórnarinnar í þessum málum.

Til þessa ríkisstjórnarsamstarfs var ekki stofnað um stórtæk verkefni. Það höfum við fengið að sjá. En einhverra hluta vegna ákvað ríkisstjórnin að setja sig í bílstjórasætið þegar kæmi að kjaraviðræðum og hefur farið mikinn í yfirlýsingum sínum um að engin ríkisstjórn hafi fundað oftar með aðilum vinnumarkaðarins til þess að leysa deilur í kjaramálum, að engin ríkisstjórn hafi lagt meira á borðið en þessi ríkisstjórn þegar kemur að lausn kjaramála, og svo mætti áfram telja.

Hér er búið að funda og funda með aðilum vinnumarkaðarins og svo kemur að deginum stóra þegar ríkisstjórnin spilar út sínu útspili. Það reynist algjört púðurskot.

Nú ætla ég í sjálfu sér ekki að gera lítið úr þeim skattahugmyndum sem þarna eru færðar fram. Þær eru um margt áhugaverðar. En það má líka alveg halda því til haga að þar eru mörg tækifæri til að gera betur til að ná til þeirra hópa sem helst er við að etja í þessum kjaradeilum, þ.e. tekjulægstu hópanna, og í því hvernig leysa eigi þann hnút sem kjaramálin eru komin í.

Það er hins vegar ábyrgðarhluti af hálfu ríkisstjórnarinnar að haga sér með þessum hætti í jafn viðkvæmum málum og kjaradeilur eru. Það er ekki hlutverk ríkisstjórnar að leysa kjaradeilur. Það mætti því spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem glottir hér við: Hvað ætlar hann að gera til að leysa þann hnút sem ríkisstjórnin hefur skapað í kjaradeilunum?