149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

skattbreytingatillögur í tengslum við kjarasamninga.

[11:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég veit eiginlega ekki hvað maður á að segja þegar fyrrverandi framkvæmdastjóri SA kemur hér upp og kvartar undan því að ríkisstjórnin hafi allt of mikið verið að hlusta á vinnumarkaðinn, [Hlátur í þingsal.] hafi haldið allt of marga fundi og það sé alvarlegt mál að reyna að kynna sér stöðuna, að menn hlusti eftir því sem skiptir máli í heild sinni.

En hverju skilaði þetta samtal? Við hækkuðum atvinnuleysisbætur í fyrra. Við hlustuðum eftir áherslum vinnumarkaðarins við útfærslu okkar, skattkerfisbreytingar sem tóku gildi um áramótin með sérstakri hækkun barnabóta og viðbótarhækkun persónuafsláttar. Við settum af stað vinnu við að greina skortinn á húsnæðismarkaðnum og fórum fram í góðu samstarfi við vinnumarkaðinn. Við fórum fram með tillögur til úrlausnar á þeim vanda og þeim hefur verið tekið fagnandi. Nú er starfshópurinn um fyrstu kaup að fara að skila o.s.frv. Það skiptir máli.

Við höfum hins vegar ekki verið í kjaraviðræðum og það er eins og hv. þingmaður haldi að við teljum okkur hafa verið í kjaraviðræðum. Við höfum aldrei sagst vera í kjaraviðræðum. Við höfum verið með allan markaðinn fyrir framan okkur, ekki bara þá sem eru núna hjá ríkissáttasemjara. Við höfum verið að hvetja til þess að þjóðhagsráð yrði virkjað til þess að það væri flæði upplýsinga milli stjórnvalda, vinnumarkaðar og seðlabanka um þjóðhagslegar stærðir og þá undirliggjandi spennu sem brýst stundum út með látum. Ég tel að það skipti máli.

Hins vegar er sannleikskorn í því að ríkisstjórnin á ekki að gefa í skyn að hún ætli að leysa málið. Það gerði hún heldur aldrei. Það hefur hún aldrei gert. Ríkisstjórnin hefur sagt að það væri forsenda fyrir aðkomu hennar að lausn einstakra mála, t.d. í húsnæðismálum, að menn væru komnir að niðurstöðu í kjaraviðræðunum. Kallað er eftir útfærslu á skattatillögum sem við höfum áður sagt að við ætluðum að hrinda í framkvæmd og birtast í fjármálaáætlun. Það er sjálfsagt að greina frá því, enda er fjármálaáætlun handan við hornið, sú næsta sem gildir fyrir næstu fimm ár.