149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

skattbreytingatillögur í tengslum við kjarasamninga.

[11:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það kemur mér ekki á óvart að hæstv. ráðherra hafi ekki vitað hvað hann ætti að segja. Það virðist einmitt vera að á öllum þessum fundum hafi ríkisstjórnin ekkert hlustað sérstaklega vel, því að þegar horft er á viðbrögðin við skattatillögunum sem hér er spilað út þarf engan snilling til að sjá að þetta er ekki það sem óskað var eftir af hálfu verkalýðshreyfingarinnar til lausnar á kjaradeilunni. Með góðum vilja hefði vel verið hægt að útfæra þessar tillögur með þeim hætti að þær hefðu spilað betur inn í lausn kjaradeilnanna, en vandamálið virðist vera að ríkisstjórnin hafi á öllum þessum fundum ekkert verið að hlusta á það sem var verið að segja við hana. Á sama tíma voru undirbyggðar væntingar um eitthvert stórkostleg útspil sem myndi leysa hnútinn en reyndist þegar á hólminn var komið litlu breyta.

Mér þykir sorglega illa á þessum málum haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar, ég verð að segja eins og er, en ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin sé opin fyrir þeirri hugsun að mögulega megi taka það svigrúm sem hér á að nýta til skattalækkana, sem ég fagna, og útfæra tillögurnar sem ríkisstjórnin hefur lagt fram með öðrum hætti (Forseti hringir.) þannig að þær spili betur inn í kjaraviðræðurnar en raun ber vitni.