149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

almenn hegningarlög.

543. mál
[11:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar fyrst til að spyrja hvaða tilgangi þetta frumvarp þjónar. Maður veltir því fyrir sér á þessum tíma, samfélagsmiðla og ummælakerfis á netinu, hvort að tjáningarfrelsi almennings sé á einhvern hátt skert í nútímasamfélagi, þegar kemur að ýmiss konar hatri, níði, smánun eða rógburði.

Hver er ástæðan fyrir því að stjórnvöld, ríkisstjórn eða hæstv. dómsmálaráðherra finna sig knúin á þessum tíma til að leggja fram breytingar á hegningarlögum, frumvarp til breytinga á hegningarlögum sem þrengir ákvæði og minnkar vernd þeirra sem helst verða fyrir hatursorðræðu. Hatursglæpir eru tvenns konar. Við verðum að skilja eðli þeirra. Annars vegar er um að ræða einhvers konar ofbeldi eða þvingun og hins vegar erum við að tala um haturstjáningu þar sem hatrið og níðið er tjáð í orðum. Við höfum ákveðið að vernda tiltekna þjóðfélagshópa og við höfum víkkað það út í tímanna rás í samræmi við það sem gerist á Norðurlöndunum og í Evrópu. Einmitt vegna þess að við teljum að ákveðinn hópur og ákveðnir einstaklingar séu í þannig stöðu að þeir þurfi aukna vernd.

Áður var það eingöngu líkamlegt ofbeldi sem sætti refsingum en því var breytt vegna þess að ástæða þótti til. Og hver er staðan á Norðurlöndunum, sem við fylgjum gjarnan? Jú, með þessu erum við að fara í þveröfuga átt við það sem tíðkast á Norðurlöndunum. Bæði Norðmenn og Svíar hafa verið að víkka þetta þessa vernd, auka við, fjölga hópum sem heyra undir þetta. Talað hefur verið um að bæta fötluðum einstaklingum inn í þennan hóp sem þurfa þessa vernd, jafnvel öldruðum, en hér ætlum við að þrengja þetta þannig að það þurfi ekki bara að vera hatursorðræða heldur þurfi orðræðan beinlínis að hafa orðið til þess að hvetja og kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.

Það er því ekki lengur nóg að móðga, smána og rógbera heldur þarf núna að sýna fram á að með orðum sínum hafi viðkomandi hvatt til frekara ofbeldis gegn þessum hópum. Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi sem og mannréttindaskrifstofa ÖSE hafa þvert á móti verið að hvetja íslensk stjórnvöld og kalla eftir því að þau setji í almenn hegningarlög sérstakar refsiþyngingarheimild vegna hatursglæpa. Gerist maður brotlegur við hegningarlög og ef telja má að ástæðan sé á einhvern hátt tengd við hatursglæpi, að það sé vegna einstaklingsins vegna útlits, vegna kynþáttar, vegna kynhneigðar eða hvers sem þarna lýtur sérstakrar verndar, sé það til refsiþyngingar.

Evrópunefndin og mannréttindaskrifstofa ÖSE hafa þannig verið að óska eftir því að íslensk stjórnvöld veiti þessum hópum sérstaka vernd. En ríkisstjórnin á Íslandi ákveður að fara í þveröfuga átt og þrengja þessa vernd núna þegar netið er galopið. Tjáningarfrelsið er vissulega vandmeðfarið, en horfa verður á það frelsi, þ.e. frelsi eins einstaklings til að segja hvað sem er, níða þjóðfélagshópa, níða stéttir, níða þá sem á einhvern hátt standa höllum fæti, og miða að það skerði ekki rétt einstaklings til að lifa góðu lífi án þess að sæta árásum.

Komið hefur fram að Samtökin '78 lögðu t.d. fram tíu kærur á sínum tíma vegna hatursummæla í garð hinsegin fólks þegar fara átti með hinsegin fræðslu í grunnskóla Hafnarfjarðar. Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu felldi öll málin niður. Það er því ekki eins og dómskerfið hafi verið stútfullt af þessum málum hingað til. Það hefur verið ansi erfitt að koma þessum málum í gegn og það sama má segja um þá sem leitað hafa réttar þeirra sem eru af erlendu bergi brotin, sem hafa mátt sæta alveg ótrúlegu níði á netinu og á ákveðnum útvarpsstöðvum. Þeim hefur heldur ekki tekist að leita réttar þeirra einstaklinga sem það hafa reynt.

Reyndar var það þannig að ríkissaksóknari sendi málin aftur til lögregluembættisins og á endanum var dæmt í tveimur málum í Hæstarétti — tveimur málum af tíu. Þannig að ég er ekki viss um að við þurfum að hafa áhyggjur af því að tjáningarfrelsið sé skert hjá þeim einstaklingum sem velja það sjálfir að fara opinberlega, við erum ekki að tala um í heimahúsum, heldur fara beinlínis opinberlega með hatur sitt, níð, róg gegn ákveðnum hópum sem eru á einhvern hátt í minni hluta. Við erum að tala um hópa eins og hinsegin fólk. Við erum að tala um fólk af erlendum uppruna. Við erum við að tala um fólk sem aðhyllist ákveðna trú.

Er það eðlilegt núna, þegar við sjáum í hinum vestræna heimi að öfgasjónarmið gegn ákveðnum minnihlutahópum eru að aukast gríðarlega, að íslensk stjórnvöld ætli að fara akkúrat í þveröfuga átt og veita þessum hópum minni rétt og minni vernd? Ég átta mig engan veginn á því hvers vegna við erum komin á þennan stað, hvers vegna við höfum valið árið 2019 þegar netið er galopið, þegar við fáum fregnir af því að verið sé að ráðast á afgreiðslukonu í versluninni Bónus fyrir að vera af öðrum litarhætti en hinn almenni íslenski borgari, þegar ráðist er á mjög vinsælan og öflugan körfuboltamann þar sem hann er við iðkun sína á vellinum. Við fáum fréttir af þessu nánast daglega. En þá ákveða íslensk stjórnvöld að víkka þessar heimildir til að ráðast á annað fólk, með smánarlegum hatursfullum ummælum.

Af því að það er ekki bara verið að ráðast á afgreiðslukonuna eða körfuboltamanninn eða hinsegin einstaklinginn. Það er verið að ráðast á allan hópinn. Það er verið að flæma allan hópinn út á jaðarinn. Verið er að jaðarsetja fólk sem við höfum ákveðið fyrir löngu síðan, fyrir áratugum síðan sagt að það þurfi ákveðna vernd með lögum einmitt til þess að koma í veg fyrir það níð sem áður hafði fengið að viðgangast. Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands er því einmitt velt upp hvernig standi á þessu lagafrumvarpi á þessum tíma. Því er líka velt upp hvernig þetta muni verða í framkvæmd, hvernig ákæruvaldið og þeir sem rannsaka hegningarlagabrot muni standa að því mati að ákveðin háttsemi sé til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi og mismunun. Hvernig verður það metið?

Hvernig ætlar ákæruvaldið að fara að því að meta það að verið sé að hvetja til hatursorðræðu? Af því að vörnin verður alltaf: Ég er bara að segja mína skoðun. Ég er ekki að hvetja neinn annan til neins. Það er alveg augljóst að í framkvæmd verður þetta til þess að það mun galopna á hvers kyns hatursorðræðu. Að mati Mannréttindaskrifstofu Íslands er sú tjáning sem hér um ræðir, þ.e. hatursorðræða eins og hún er skilgreind í ákvæði 233. gr. a hegningarlaga, alltaf til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.

Telur skrifstofan að með þessari breytingu á hegningarlögunum sé verið að flækja ákvæðið og gera það erfiðara fyrir að fylgja eftir brotum með saksókn enda verði sönnunin mjög flókin. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra tilgreindi hér og nefndi að fólk í valdastöðum þyrfti að meta það enn betur hvort það með orðum sínum væri að hvetja til einhvers konar haturs, kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun, vegna þess að í krafti valdsins væri ákveðin hvatning, mögulega.

Ég held að ég geti vel tekið undir með hæstv. ráðherra að valdafólk þurfi að vanda sig enn betur, hvernig það velur orð sín. Maður veltir fyrir sér hvort það geti flækt málin enn frekar þegar kemur að því að einstaklingar í þessum minnihlutahópum leiti réttar síns. Hvort það geti flækt málið enn frekar þegar það fólk leitar réttar síns gagnvart valdhöfum að búið sé að útvatna glæpinn, búið sé að normalísera glæpinn, búið sé að samþykkja að maður megi í rauninni fara fram með hvers kyns hatursorðræðu, níði, rógi, smánun, undir því yfirskini að maður sé í rauninni bara að lýsa skoðun sinni en ekki að hvetja aðra til dáða.

Ég verð að segja að ég hef mjög miklar áhyggjur af þessu frumvarpi og sé og heyri á þeim sem starfað hafa á þessum vettvangi að þeir hafa áhyggjur, eins og t.d. fyrrverandi lögreglumaður, Eyrún Eyþórsdóttir, sem nú kennir í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri. Hún hefur komið fram og lýst yfir miklum áhyggjum. Hún var sá lögreglumaður á Íslandi sem fékkst einmitt við þennan málaflokk. Hún þekkir hann manna best. Ég hef bæði séð viðtal við hana og grein eftir hana þar sem hún lýsir yfir mjög miklum áhyggjum af þessu frumvarpi og vilja íslenskra stjórnvalda og ríkisstjórnar að þrengja þetta ákvæði og í rauninni auðga og auðvelda hatursorðræðu á Íslandi.

Ég tek undir orð hennar og ég tek líka undir umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands. Ég held að í nútímanum, árið 2019 á Íslandi, þurfum við einmitt frekar að fara í hina áttina eins og gert er annars staðar á Norðurlöndunum, að auka vernd minnihlutahópa en ekki þrengja og þvæla kerfið til að auka rétt þeirra sem vilja spúa hatri sínu.