149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

helgidagafriður og 40 stunda vinnuvika.

549. mál
[12:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum framsöguna og verð að viðurkenna að það togast dálítið á í mér varðandi þetta mál. Ég held að full ástæða sé til að taka þau ákvæði sem snerta réttindi vinnandi fólks úr lögum sem tengjast trúfélögum og færa þau yfir í lög sem snúa að réttindum vinnandi fólks. Það vekur ákveðnar áhyggjur að samtök þess vinnandi fólks eru ekki fullkomlega á bak við þessar breytingar. Það er eitthvað sem við tökum væntanlega upp í allsherjar- og menntamálanefnd og eitthvað sem þarf eðli máls samkvæmt að skoða rækilega þegar við snertum við lögum um 40 stunda vinnuviku.

Það sem mig langar kannski helst að spyrja ráðherrann út í er hvort ekki sé ástæða til að stíga skrefið til fulls og fella úr gildi lög um helgidagafrið þegar mér sýnist ráðherrann vera að leggja til að allar greinar nema sú 3., hvað snertir efnisinntak laganna, verði felld úr gildi. 3. gr. er ágæt, hún snýst um að ákveðinn friður ríki umhverfis þá staði þar sem trúarathafnir eiga sér stað og sú friðhelgi er eitthvað sem ég held að við getum alveg skrifað upp á.

Telur ráðherrann ekki að við séum kannski að splæsa fullmiklu í það ákvæði að gefa því heil lög þegar það myndi duga að setja þetta inn sem sjálfstæða grein í lög um trúfélög og væri jafnvel eðlilegra?