149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

helgidagafriður og 40 stunda vinnuvika.

549. mál
[12:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það kann vel vera að lögum um 40 stunda vinnuviku verði einhvern tímann breytt og ég hef ekki skoðun á því — ég hef reyndar skoðun á því, en það heyrir ekki undir mig. Ég vil hins vegar árétta það að samningar manna, réttindi manna hvað frídaga varðar — alla jafna er kveðið á um það í kjarasamningum hvort eð er. Ég er því ekki einu sinni viss um að brýn nauðsyn standi til þess að kveða á um þessa frídaga í lögum um 40 stunda vinnuviku.

Það er allt útfært í kjarasamningum, miðlægum kjarasamningum, eða eftir atvikum einstaklingsbundnum kjara- og ráðningarsamningum fólks, hvaða frídaga það hefur. Ég hef ekki áhyggjur af því, jafnvel þótt lög um 40 stunda vinnuviku taki verulegum breytingum eða jafnvel þótt þau væru algerlega afnumin að þá standi menn uppi frídagalausir á Íslandi af því að ekki hafi verið sérstök lög um helgidagafrið. Ég tel að hv. þingmaður lýsi mikilli trú á þeirri sem hér stendur ef hann óskar eftir því að dómsmálaráðherra hlutist til um þessa frídaga sem eru að vísu mannréttindi. Það má svo sem færa þetta undir þann málaflokk dómsmálaráðuneytisins að það séu ákveðin mannréttindi.

Ég hef ekki áhyggjur af þessu og hvet hv. þingmann til að missa ekki svefn yfir þessu. Hann mun fá sína frídaga eftir sem áður. Hvaða starfsemi mun mögulega bætast við? Ég hef ekki hugmynd um það og með þessu frumvarpi er ekki lögð nein skylda á nokkurn mann til að veita nokkra þjónustu umfram það sem gert er núna eða jafnvel hætta því. Eins og ég nefndi í framsögu minni hvet ég menn almennt til þess að halda helgidagafrið á helgidögum. Mér finnst vera meiri bragur á því. Það er mjög skýrt í þessu frumvarpi hvaða starfsemi mátti ekki veita þjónustu sína, verslanir í plássi umfram 600 m². Það er þá kannski vísbending um hvað gæti mögulega bæst við.