149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

helgidagafriður og 40 stunda vinnuvika.

549. mál
[13:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er kominn svolítið vítt í skilgreiningum hvað þetta varðar, að mínu mati, þegar hann er farinn að ræða íþróttafélögin og stjórnmálaflokkana o.s.frv. Ríkt hefur tiltölulega mikil sátt um þennan þátt laganna, um helgidagafrið. Gagnrýni hefur meira snúist um verslun og viðskipti og dagana sem slíka o.s.frv. Ég hef ekki heyrt að menn séu að setja út á að óheimilt sé að raska eða trufla þessar athafnir. Ég hef ekki orðið mikið var við það.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, hv. þingmaður, að ég tel nauðsynlegt, og kom inn á það í máli mínu, að þessi lífsskoðunarfélög og trúfélög fái að stunda sínar athafnir í friði, og höfða ég þá til fornar menningararfleifðar og þess að menn beri virðingu fyrir þessum athöfnum og fyrir trú fólks, hver svo sem hún er. Við þekkjum það bara frá útlöndum að menn hafa verið ofsóttir fyrir trú sína og trúariðkun.

Ég tel nauðsynlegt að svona ákvæði sé inni. Við getum deilt um hvort þetta þurfi að vera sérstök lög og er sjálfsagt að skoða það út frá tæknilegum atriðum. En fyrst og fremst er mikilvægt að þetta sé við lýði, að hægt sé að (Forseti hringir.) vernda þessar athafnir með ákveðnum hætti og lagaboði hvað það varðar.