149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

helgidagafriður og 40 stunda vinnuvika.

549. mál
[14:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðum um þetta mál. Umræðan hefur farið svolítið út um víðan völl og undir lokin beinst að öðru en kannski helgidagafriðinum með beinum hætti. En það er, eins og ég kom að í framsögu minni, og vil kannski árétta hér í lokin, tilgangur þessa frumvarps að auka frelsi manna til þess að veita og þiggja þjónustu á þeim frídögum sem við höfum hingað til haldið og höfum í þeim efnum vísað til helgidaga þjóðkirkjunnar. Það er tilgangurinn.

Að öðru leyti á ekki að raska þeim frið sem helgihaldi er veitt í núgildandi lögum um helgidagafrið — og þá er ég að vísa til þess að það sem eftir stendur í núgildandi lögum, nái frumvarpið fram að ganga, er ákvæði um verndun helgihalds í því skyni að tryggja frið og næði innan þeirra marka sem greinir í 3. gr., sem eftir stæði, þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að trufla guðsþjónustu og kirkjulegar athafnir eða annað helgihald með hávaða, eins og það er orðað þar, eða öðru því sem kann að vera andstætt helgi viðkomandi athafna.

Og af því að það kom til tals, í máli nokkurra hv. þingmanna, er rétt að árétta að þetta ákvæði laganna í dag — og yrði þá áfram eftir sem áður — er ekki bara bundið við þjóðkirkjuna heldur tekur líka til annarra trúfélaga. Ekki er gerður greinarmunur þar á helgihaldinu, fyrst það var sérstaklega nefnt.

Ég tek hins vegar undir þau sjónarmið sem hér hafa fram komið um að huga þurfi að frelsi manna til þess að gera samninga um sína frídaga og haga þeim eins og þeim best hentar. Það þarf að vera tryggt og mætti að sjálfsögðu auka til muna, m.a. með lögum um endurskoðun á lögum um 40 stunda vinnuviku og öðru er lýtur að miðstýrðri kjarasamningagerð. Ég held að það sé löngu tímabært að huga að meira frelsi manna í þeim efnum eins og menn hafa svo sem verið að ræða.

Ég hvet því hv. þingmenn, sem hér hafa fjallað sérstaklega um það, til að taka það upp á þessu þingi en undir öðrum dagskrárlið en þessum.