149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

Jafnréttissjóður Íslands.

570. mál
[14:34]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra gerði meiri hluti stjórnar sjóðsins þessa tillögu að breytingu til að tryggja framgang og framtíðarskipan Jafnréttissjóðs Íslands og starfsemi hans, enda á sjóðurinn jafn mikið erindi nú eins og áður þegar til hans var stofnað svo veglega 19. júní 2015.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur áðan þá hefur þessi vegferð verið viðamikil. Það er búið að veita styrki til fræðilegra verkefna sem og þess sem við höfum valið að kalla verkefnatengd verkefni. Það hefur gefið sjóðnum töluvert meira vægi og ég vona svo sannarlega að það haldi áfram, að við verðum ekki aðeins inni í háskólasamfélaginu, því að það er mjög auðvelt fyrir þá sem eru þar inni að sækja um styrki enda kunna þeir að sækja um styrki. Oft og tíðum máttum við í stjórninni skoða umsóknir ansi gaumgæfilega til þess að þær fengju brautargengi þó svo að þær fylltu ekki algerlega þau skilyrði sem fræðasamfélagið setur stundum. Mér finnst mjög gott að áfram eigi að kalla eftir umsóknum um slík verkefni og að rannsóknir verði auðvitað áfram inni. Áhersla á fræðslu og forvarnir er mjög mikilvæg og kannski erum við öll í samfélaginu að fara svolítið á þá braut.

Það er ótrúlega metnaðarfullt markmið að ætla að setja áherslu á að útrýma kynbundinni og kynferðislegri áreitni sem og kynbundnu ofbeldi og mér finnst mjög gott að sjóðurinn muni styrkja verkefni sem snúa sérstaklega að ungu fólki þar sem rætt er um ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis og verkefni, enn og aftur verkefni, sem stuðla að aukinni þekkingu á forvörnum og þessum samræmdu viðbrögðum, sem við ræðum oft um sem er því miður að finna í nánum samböndum.

Ég vil að lokum þakka stjórn Jafnréttissjóðs fyrir og sérstaklega vil ég nefna Árna Matthíasson og Guðna Elísson sem hafa staðið vaktina, ef svo má segja, í gegnum þetta tímabil sem nú er að renna sitt skeið á enda. Ég óska hæstv. forsætisráðherra til hamingju með að vera búin að fá sjóðinn aftur heim.