149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

sjúkratryggingar.

513. mál
[15:22]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég fagna því sérstaklega að þetta mál sé komið fram. Það hefur alltaf verið mjög sérkennilegt, og í raun og veru endurspeglað fordóma sem hafa verið í heilbrigðiskerfinu, að sálfræðiþjónusta hafi ekki verið meðhöndluð með sama hætti og önnur heilbrigðisþjónusta, hún felld undir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og almenningi sé tryggður sambærilegur aðgangur að þeirri mikilvægu þjónustu eins og að annarri heilbrigðisþjónustu.

Það er einhvern veginn lýsandi fyrir þetta, eins og hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna á undan, að á sama tíma og við erum að setja Norðurlanda- og jafnvel Evrópumet í pilluáti má ekki verja neinum fjármunum í að ráðast að rót vandans, að beina fólki í sálfræðiþjónustu á viðráðanlegu verði. Við vitum að kostnaðurinn við sálfræðiþjónustu eins og hún er veitt í dag er einfaldlega fjölmörgum heimilum algerlega óyfirstíganlegur. Þar af leiðandi víkur fólk sér undan eða getur ekki nýtt sér þá mikilvægu þjónustu.

Málið er mér sérstaklega hugleikið af því að þegar við horfum á samhengið milli forvarnaaðgerða af þessu tagi og kostnaðar sem ella verður á öðrum stigum samfélagsins, á öðrum stigum heilbrigðiskerfisins þegar fram í sækir, er það svo gríðarlega sterkt.

Ein helsta ástæða örorku í dag eru andlegir kvillar af einhverju tagi. Við vitum að þar getum við náð svo miklu betri árangri, einmitt með því að veita fólki aðgang að sálfræðiþjónustu á viðráðanlegu verði. Við vitum og heyrum innan úr skólakerfinu að með því að auka aðgengi nemenda að þjónustu sálfræðinga er hægt að draga verulega úr líkum á brottfalli úr skóla. Við þekkjum ágætlega tengslin á milli brottfalls úr námi og líkna á að enda á örorku síðar, jafnvel aðeins að fáeinum árum liðnum. Það einkennir m.a. þann stóra hóp ungs fólks sem er á örorku hjá okkur. Við skerum okkur úr í samanburði við önnur Norðurlönd því að þar er oft á ferðinni hópur sem hefur átt við einhverja sálræna erfiðleika að glíma, flosnað upp úr námi og á endanum leitað inn á örorku.

Í dag horfum við framan í það að nýgengi örorku er hér mjög mikið og mun meira en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Við höfum algerlega brugðist skyldum okkar í raun og veru til að leita annarra leiða til að styðja við fólk heldur en eingöngu að tryggja því framfærslu í gegnum örorkulífeyri, að við beitum heilbrigðiskerfinu, að við beitum ekki síst geðheilbrigðiskerfinu og þjónustu sálfræðinga til að liðsinna fólki við að finna lausn á vanda sínum í stað þess að bíða uns vandamálin eru orðin það mikil og jafnvel óyfirstíganleg að fólk neyðist á örorku til að sjá sér farborða.

Við höfum séð spár sem segja okkur að reikna megi með að kostnaður vegna örorkulífeyriskerfisins gæti vaxið um allt að 50 milljarða kr. á ári á næsta áratug eða svo — úr þeim 65 milljörðum sem við erum með í árlegum kostnaði örorkulífeyriskerfisins í dag. Það segir mér að það má miklu til kosta til að reyna að koma í veg fyrir að sú þróun eða sú spá raungerist. Hér væri svo sannarlega stigið mjög stórt og veigamikið skref í þá átt.

Í mínum huga er þetta eitt besta dæmið um þá möguleika sem við eigum í ríkisrekstrinum til að fjárfesta í heilbrigði þjóðarinnar, fjárfesta í heilsu, og um leið að draga verulega úr kostnaði sem síðar kann að falla til í heilbrigðiskerfinu. Útgjöld í þennan málaflokk gætu þegar fram í sækir sparað mjög háar fjárhæðir í ríkisrekstrinum, í heilbrigðiskerfinu, í örorkulífeyriskerfinu, og þannig verið sennilega ein sú ábatasamasta fjárfesting sem við getum ráðist í, fjárfesting í heilsu.

Þá er ekki talað um þau gríðarlegu áhrif sem þetta getur haft á lífsgæði fólks, á félagslega þátttöku fólks, á möguleika fólks til að taka þátt í samfélaginu, taka þátt í vinnumarkaði, forðast félagslega einangrun sem oft fylgir vandamálum af þessu tagi.

Þetta er þjóðþrifamál, herra forseti, og ég vona svo sannarlega og fagna þeim mikla stuðningi sem það fær hjá þeim fjölda þingmanna sem veita því brautargengi við framsögu þess. Mér telst til að okkur vanti aðeins átta atkvæði til viðbótar til að geta klárað málið til enda og vonandi tekst okkur það á þessu þingi.