149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

sjúkratryggingar.

513. mál
[16:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargott svar. Hv. þingmaður er jákvæður í garð þess að þetta verði skoðað í nefndinni. Það er brýnt að mínu mati og ég þakka fyrir það. Félagsráðgjafar veita margvíslega þjónustu, mikilvæga þjónustu. Það kemur fram í greinargerðinni, og við þekkjum það, að kostnaður samfélagsins er verulegur af sjálfsvígum og öðru slíku. Það er mjög brýnt að einstaklingar sem glíma við þunglyndi og annað slíkt hafi aðgang að slíkri heilbrigðisþjónustu sér að kostnaðarlausu. Við sjáum í þeim tölum sem nefndar eru þarna, eins og ég nefndi áðan, að 33% hafa hreinlega ekki efni á að leita sér aðstoðar í þessum efnum.

Hv. þingmaður talaði um mikilvægi þess að útvíkka þetta í nefndinni. Ég styð það heils hugar og það er ánægjulegt að hún nefndi þetta. Ég get nefnt sem dæmi að félagsráðgjafar sinna hjónaráðgjöf. Það eru til fyrirtæki á sviði fjölskylduráðgjafar þar sem sérmenntaðir í klínískir félagsráðgjafar starfa við að hjálpa hjónum að glíma við ýmis vandamál. Í mörgum tilfellum geta þeir aðstoðað fólk við að halda fjölskyldum saman sem ella hefðu sundrast og endað í hjónaskilnaði. Við þekkjum að það er dýrt fyrir samfélagið og hefur áhrif á börn og fjölskyldur almennt. Það er því til mikils að vinna að fólk eigi greiðan aðgang að ráðgjöf af þessu tagi og mér finnst mikilvægt að félagsráðgjafar falli undir þann hóp sem er verið að ræða hér að falli undir Sjúkratryggingar Íslands.