149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

184. mál
[17:06]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessari tillögu um endurskoðun og tel þörf á henni og tel raunar að víkka mætti út heiti tillögunnar. Tillagan er til þingsályktunar „um endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi“. Ég myndi vilja að það væri líka varðandi landnotkun og skipulag lands og fleira. Í öllum þessum texta í greinargerðinni, mjög góðri greinargerð sem fylgir með, kemur greinilega fram að við erum að tala um miklu meira en bara uppkaup á landi.

Ég verð hins vegar að gera athugasemdir við markmiðin, sérstaklega í a- og b-lið. Í a-liðnum kemur skýrt fram að markmiðið sé „að koma í veg fyrir uppkaup erlendra aðila“ sem ekki hafi hér lögheimili og fasta búsetu. Ég er ósammála því. Ég sé ekkert að því að erlendir aðilar geti keypt hér land eins og aðrir, ekkert frekar en að Íslendingar geti keypt sér land í öðrum ríkjum.

Oft er talað um erlenda auðmenn í umræðunni eins og þeir séu glæpamenn og hafi einhver varhugaverð áform í huga þegar þeir kaupa hér land. Ég tel að svo þurfi alls ekki að vera og að íslenskir aðilar geti alveg verið jafn varhugaverðir landeigendur og erlendir aðilar.

Þannig að ég get ekki samþykkt það og vona að það verði rætt til hlítar í málsmeðferðinni. Ég vil spyrja flutningsmann um ástæður þess að það er meginmarkmiðið.