149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

184. mál
[17:12]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég kom inn á þegar ég fór yfir málið áðan þá hafa lögin okkar auðvitað verið skert hvað valdið varðar. Varðandi það að setja það í hendur hvers og eins sveitarfélags að skipuleggja hvernig það vill sjá nærsamfélag sitt — forkaupsskylda sveitarfélaga að jörðum hefur auðvitað verið afnumin. Það er búið að afnema hana. Ég tel að það hafi verið bagalegt. Það er ekki víst að allt þetta hefði gerst í samfélaginu sem þó hefur gerst, ef það væri enn þá í gildi.

En ég held að fyrst og fremst sé ekki gott að hvert og eitt sveitarfélag hafi það í hendi sér að ákveða þetta. Mér finnst betra að við höfum einhverja heildstæða löggjöf, ég held að það sé líka betra fyrir sveitarfélögin af því að auðvitað er hluti af landinu skilgreindur í skipulagi, deiliskipulagi og aðalskipulagi og allt það. Það liggur fyrir hvernig það er. Það er ákveðinn iðnaður, eins og við þekkjum. Það eru iðnaðarhverfi, landbúnaðarnotkun og allt það. En síðan getur þetta gerst. Þrátt fyrir löggjöfina hefur þetta gerst og það er það sem við þurfum að horfa betur á. Er þarna eitthvað sem við getum breytt eða gert öðruvísi til að koma í veg fyrir það?

En ég held að fyrst og fremst eigi þetta ekki að vera undir hverju og einu sveitarfélagi komið, því að þar getur myndast alls konar — ég ætla ekki að segja samkeppni, en það alla vega getur myndast eitthvert misræmi í því hvernig sveitarfélög ákveða að taka á slíkum málum. Ég vona að atvinnuveganefnd taki þetta fyrir og skoði alla þessa hluti. Þetta eru spurningar sem búið er að varpa fram og koma eflaust upp í nefndinni þegar að því kemur, eða ég vona það alla vega.