149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

184. mál
[18:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í máli nokkurra þingmanna í dag er ég einn af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu um endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi. Menn hafa tekið misdjúpt í árinni í umræðunni um mikilvægi málsins og ég ætla svo sem ekki að draga úr því. Ég ætla heldur ekki að draga úr mikilvægi þess að hér sé unnið vel og að við undirbúning lagasetningar verði athuguð og farið gaumgæfilega yfir þau atriði sem þar er talað um, vegna þess að málið er býsna flókið.

Búseta sem skilyrði fyrir eignarhaldi á einhverri eign er ekki alveg einfalt mál. Ef við lítum á bújarðir sem nokkurs konar atvinnutæki, þá gerum við öðruvísi kröfur til þeirra sem stunda þess konar atvinnurekstur en kannski ýmissa annarra. Þess vegna er mjög mikilvægt að skoða þetta gaumgæfilega. Það er hins vegar svo að mikil verðmæti eru í því fyrir þjóðina alla, vil ég meina, að búið sé á bújörðum og jarðir í landinu séu nytjaðar, hvort heldur er, eins og hv. þm. Þórunn Egilsdóttir komst að orði áðan, til hefðbundins búskapar eða annars konar búskapar. Það er mjög mikilvægt.

Það sem er hins vegar hættulegt, að mínu viti, eða a.m.k. mjög varhugavert er að heilu kippurnar af jörðum, jafnvel samliggjandi jarðir í sömu fjórðungum séu hreinlega teknar út úr búrekstri, séu hreinlega teknar út úr byggð í rauninni og aðgangur að þeim og þeim gæðum sem þeim fylgja verulega takmarkaður fyrir allan almenning. Það er ekki ásættanlegt. Þá erum við farin að tala um þrengingu almannaréttar með tilliti til umgengni og annars í raun. Þó að náttúruverndarlögin séu ekki þannig að almannarétturinn einskorðist við jarðir, þá liggur takmörkunin á umgengnisrétti og almannarétti í ræktuðu landi.

Þegar einhver einstaklingur eða hópar eru búnir að kaupa upp stóran hluta af jörðum þar sem er mikið af ræktuðu landi en búskapur ekki stundaður, þá er í raun búið að blokka þess vegna heilu landsvæðin og heilu héruðin fyrir almennri umgengni. Það gengur ekki. Ég vil a.m.k. að nokkru leyti taka undir það sem hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir sagði í andsvari fyrr í dag um þetta mál, að það sem ég vil kalla svona kippukaup á jörðum sem ekki á að nota til búsetu heldur í rauninni að taka út úr eiginlegri í landnýtingu með kaupunum, þar skiptir í sjálfu sér ekki máli hverrar þjóðar þeir eru sem kaupa, það er alveg jafn vont fyrir okkur sem búum í þessu landi og viljum geta notið landsins, að jarðirnar séu með þeim hætti einangraðar.

Þess vegna er mikilvægt að þetta verði skoðað gaumgæfilega, líka með tilliti til þeirrar styrku stoðar sem ferðaþjónustan er orðin í landinu, að það sé enn mikilvægara en ella að hafa um það skýra lagaumgjörð með hvaða hætti menn geta umgengist land, hvernig menn geta takmarkað umgengni um land og með hvaða hætti þeir geta haft eignarhald og búsetu á landi. Allt þetta eru atriði sem munu verða skoðuð í tengslum við þingsályktunartillöguna.

Annað sem skiptir máli líka eru þær náttúruauðlindir sem kunna að leynast á jörðum, í samhengi við sameiginlegan nýtingarrétt okkar sem þjóðar á náttúruauðlindum. Allt þetta þarf að skoða vel og gaumgæfilega.

Mér skilst að málið gangi til hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Í rauninni er þetta þannig mál að það hefði alveg eins getað gengið til umhverfis- og samgöngunefndar, og það hefði alveg eins getað gengið til atvinnuveganefndar. Vegna þess að það snertir á mörgum lykilatriðum í sambandi við það hvernig við upplifum búsetu í landinu og hvernig við upplifum það að nota landið og njóta þess.