149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

samningar við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara.

[14:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem kemur fram í máli hennar að nú er í gildi endurgreiðslureglugerð gagnvart sérgreinalæknum og það var mér mikið fagnaðarefni að um það náðist sameiginlegur skilningur Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna að láta endurgreiðslureglugerðina taka við með þeim hætti að sjúklingar fyndu ekki fyrir breytingunni.

Samkvæmt mínum upplýsingum og heimildum standa viðræður yfir við sérgreinalækna. Þar er í raun og veru verið að byggja á tilteknum meginsjónarmiðum, kannski í fyrsta lagi þeim að heilbrigðisþjónustan sé samþætt og samfelld á öllum þjónustustigum og byggist á heildstæðri stefnu í heilbrigðismálum. Það sem við höfum aðallega verið að skoða í þessu tilliti er mikilvægi þess að jafna aðgang sjúklinga að þjónustu sérfræðilækna.

Nú hefur það verið þannig lengst af að það er allt að því tilviljunum háð hver aðgangur, sérstaklega íbúa á landsbyggðinni, er að tilteknum sérgreinum. Þjónusta sérfræðilækna á heilbrigðisstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins getur verið veitt af sérfræðingum sem eru starfandi á heilbrigðisstofnunum en getur líka verið veitt af sérfræðingum sem lúta samningum við SÍ með samningum við sérhæfðu sjúkrahúsin eða í fjarheilbrigðisþjónustu. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, að mikilvægt er að þetta séu fjölbreytt úrræði, en aðalatriðið er að aðgengi íbúa landsins sé tryggt að þjónustu tiltekinna sérgreina. Ég nefni t.d. augnlækna, barnalækna, geðlækna, fæðingar- og kvensjúkdómalækna o.s.frv. Um er að ræða yfir 30 sérgreinar og fara þarf yfir það heildstætt hvaða greinar það eru sem er mikilvægast að allur almenningur hafi aðgang að og það er hluti af samningsmarkmiðunum.

Ég vík að samningum við sjúkraþjálfara í síðara svari mínu.