149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:37]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er engum vafa undirorpið hversu jákvæð áhrif ferðaþjónustan hefur haft á íslenskt efnahagslíf á undanförnum árum. Hún hefur drifið hagkerfið upp með þeim mikla vexti sem hér hefur orðið, fjölgað störfum verulega og haft jákvæð áhrif á atvinnulíf um allt land. Hún hefur ekki síður haft jákvæð áhrif á þjónustu við okkur, íbúa landsins, sem er fyrir vikið um margt fjölbreyttari og betri en áður var.

Það er margt sem gert hefur verið vel og það er engin ástæða til að draga fjöður yfir að margt hefur verið vel gert af hálfu hæstv. ráðherra og stjórnvalda í því að taka á þeim áskorunum sem fylgt hafa þessum hraða vexti greinarinnar. Það er hins vegar tvennt sem ég hef áhyggjur af, og auðvitað er það alltaf svo. Hið opinbera hefur mjög takmarkaða getu til þess að móta stefnu atvinnugreina. Þær þróast eftir þeirri eftirspurn sem ráðandi er hverju sinni og erfitt er að sjá fyrir í af hálfu stjórnvalda eins og dæmin sýna síendurtekið. Og auðvitað verður greinin sjálf að hafa ákveðið frjálsræði í að meta hvar vaxtarsprotar liggja hverju sinni, hvar tækifærin eru.

Það er hins vegar nokkuð sem stjórnvöld bera ríka ábyrgð á, þ.e. að skapa umgjörðina fyrir greinina sjálfa. Í tilfelli ferðaþjónustunnar er fíllinn í herberginu, ef svo mætti orða það, hið opinbera fyrirtæki, Isavia og sú stefna sem það fylgir. Það verður að gagnrýna að t.d. spá fyrirtækisins sé ekki áreiðanlegri en raun ber vitni, að við séum þegar í upphafi árs í annarri eða þriðju endurskoðun á þeirri spá. Hún er forsenda allra ákvarðana greinarinnar um uppbyggingu og hvaða framboðs megi vænta. Þarna verður að bæta verulega úr.

En síðan verður að horfa á hið síðarnefnda, sem er auðvitað sá óstöðugleiki sem gjaldmiðillinn okkar skapar okkur og sér í lagi atvinnugrein sem þessari, sem er ákaflega viðkvæm fyrir gengissveiflum.

Hæstv. ráðherra. Er ekki kominn tími til að skoða þennan gjaldmiðil?