149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:58]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja þessa síðari ræðu á að þakka fyrir þessa góðu umræðu og þakka aftur hæstv. ráðherra fyrir samtalið. Það er mjög mikilvægt að við tökum reglulega umræðu um stærstu atvinnugrein landsins og fylgjumst vel með stöðu hennar. Uppbygging ferðaþjónustunnar á Íslandi hefur skapað nýja og mikilvæga stoð íslensks atvinnulífs og skapað þannig fjölbreytt störf víða um landið. Við eigum ferðaþjónustunni líka mjög margt að þakka en á síðustu árum hefur sprottið upp úrval kaffihúsa, veitingastaða og gististaða, uppbygging fjölbreyttra áfangastaða er meiri sem og bættir innviðir og ekki má gleyma fjölda afþreyingarmöguleika sem nýtast Íslendingum ekki síður en erlendum ferðamönnum.

Það er sannarlega margt sem þarf að takast á við á næstu vikum og mánuðum. Mikilvægt er að ríkið bregðist við þeim vísbendingum sem eru á lofti um samdrátt í greininni, til að mynda með aukinni innspýtingu í markaðssetningu og rannsóknir til stuðnings greininni.

Í mínum huga er ljóst að vegna stöðunnar þarf ríkið að stíga inn af meiri þyngd en áður var fyrirhugað, t.d. með auknu fjármagni og auknum fókus í markaðsmálum, en að auki að nýta betur það fjármagn sem nú þegar er ætlað til markaðssetningar. Til þess er algjört lykilatriði að fjárfesta meira í grunnrannsóknum á ferðaþjónustunni, enda eru þær undirstaða skynsamlegrar ákvarðanatöku fyrir bæði stjórnvöld og greinina.

Herra forseti. Við höfum í dag tækifæri til að bregðast við fyrirsjáanlegum samdrætti í greininni, bæði með því að nýta andrýmið sem gefst til að byggja upp innviði og stoðkerfið og með því að setja aukinn kraft í markaðssetningu og rannsóknir á greininni. Ég vona sannarlega að hæstv. ráðherra grípi það tækifæri í samtali við greinina.