149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ljómandi góða ræðu. Það árar ágætlega á Íslandi. Það höfum við séð og heyrt. Það eru þó blikur á lofti, rétt eins og hv. þingmaður kom inn á. Kjarasamningar eru lausir og í gangi eru, eða eiga að vera í gangi, viðræður milli helstu aðila á almennum vinnumarkaði. En þó svo að ári ágætlega vantar okkur alltaf fé til verkefna og eins og fram kom í dag, m.a. hjá hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, munar töluverðum fjármunum á því gengi sem virðist eiga að bjóða mönnum núna og því sem var í boði 2017.

Hv. þingmaður nefndi, ef ég man rétt, 10–11 milljarða og fyrir þá er hægt að gera ýmislegt. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort staða okkar sé virkilega þannig að við getum leyft okkur að segja að 10–11 milljarðar eða þess vegna 8 milljarðar skipti ekki máli í stóra samhenginu, vegna þess að betra sé að klára vandamálið — eða hvað menn kalla það, ég kalla þetta ekki vandamál — á þennan hátt og gefa eftir gagnvart aðilunum þannig að þeir geti farið með fé út fyrir verð sem þeir hafa lengi beðið eftir. Gleymum því ekki að þeir hafa lengi beðið, og verið þolinmóðir, eftir því að geta tekið sitt fé héðan út á verði sem hentar þeim en ekki okkur, ekki Íslendingum, íslenska ríkinu eða íslenskum almenningi. Þess vegna er grunnspurningin hvort það er ekki þannig að okkur muni um, hvort sem það eru 5 milljarðar, 8, 10 eða 11, að við þurfum á öllum mögulegum tekjum okkar að halda til að geta bætt í eða staðið undir þeim væntingum sem við höfum, til að geta liðkað fyrir kjarasamningum, setja inn í húsnæðismálin, heilbrigðismálin o.s.frv.