149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Já, þetta er eitt af því sem ekki hafa fengist svör við eða að menn hafi ekki lagt það á sig, þeir sem eru fylgjandi þessu máli, að svara hvers vegna þessi tímapressa er sett á. Hvers vegna eru menn að gera þetta með þessum hætti? Ekki er hægt að skilja það af nefndarálitinu og þeirri stöðu sem við erum í í dag með málið að þetta hafi skipt svona miklu máli.

Ef menn hafa hins vegar lofað eða sagt eitthvað við eigendur að þessum eignum sem þeir þurfa að standa við, þá vitum við að sjálfsögðu ekkert um það. Við vitum ekkert hvort menn hafi hreinlega handsalað eða sagt að þetta myndi bara verða í lagi og þeir fengju þetta og þess vegna sé þessi pressa. Ég hef ekki hugmynd um það. Það hefur enginn komið hingað í ræðustól og í rauninni reynt að skýra málið almennilega út hvers vegna þessi þrýstingur er á málinu.

Ég hef líka velt fyrir mér — eitthvað segir mér að hugsanlega, ég man það ekki, kannski er ég búinn að lesa það yfir hérna, að þetta mál komi frá Seðlabankanum. Að verið sé að reyna að klára einhver mál þar eða létta á þeim, ég veit það ekki. Ég verð því miður að segja, miðað við fréttir dagsins um stjórnsýsluna í Seðlabankanum og það sem þar er í gangi, hvort ástæða sé til að velta fyrir sér að fara nánar í skoðun á bankanum líkt og bankaráðið, sýnist mér ætli að gera eða fjalla um miðað við þær fréttir sem hafa komið fram.

Ég held hins vegar, svo ég haldi mig við málið og spurningu hv. þingmanns, að rökin vanti hreinlega og skýringar á því hvers vegna þetta þarf að gerast núna og hvers vegna í ósköpunum menn telja það réttlætanlegt að gefa þennan afslátt.