149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:25]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir. Það er nefnilega þessi hraðferð málsins sem vekur upp allar þessar spurningar og það er merkilegt að þingmenn hafi sagt hér frammi að þeir vildu ekki taka þátt í umræðunni, þá myndi hún lengjast. Ég vil taka undir orð hv. þm. Bergþórs Ólasonar sem nefndi það í dag að hugsanlega hefði umræðan styst ef fleiri hefðu tekið þátt. Það er merkilegt að aðeins þingmenn Miðflokksins halda uppi þessari umræðu þegar gríðarlegir hagsmunir eru í húfi. Planið hlýtur því að vera þannig að á einhverjum tímapunkti fáum við þau svör sem við höfum kallað eftir. Við erum að tala um a.m.k. 84 milljarða og ef við förum niður í smæstu upphæðina erum við að tala um 23 milljarða, sem er munurinn á því hvort við erum að tala um 137,5 kr. eða 190 plús.

Það er búin að vera mikil tímapressa og síðan hefur komið í ljós að þessi tímapressa var engin af því að dagurinn í gær leið og dagurinn í dag leið einnig. Það verður merkilegt að fylgjast með hvernig málinu vindur fram, það er búið að gefa eftir og það er spurning hvort það verður gefið enn meira eftir í þessu máli.