149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Eins og kunnugt er hefur hann góða þekkingu á þessu máli og reynslu í samskiptum við vogunarsjóðina sem hér hafa verið til umræðu. Það er að sjálfsögðu mjög dýrmæt reynsla. Langar mig aðeins að koma inn á það að þegar tilkynnt var um samning Seðlabanka Íslands við aflandskrónueigendur þann 12. mars 2017 var jafnframt tilkynnt um að aflandskrónueigendum sem ekki hefðu gert samkomulag við bankann yrði boðið að gera sams konar samninga.

Þann 22. mars 2017 birtist síðan eftirfarandi fyrirsögn í Kjarnanum: „Við ætlum að bíða eftir hagstæðara gengi“. Það er haft eftir aflandskrónueiganda. Í Kjarnanum, þar sem vitnað er í viðtal við Bloomberg-fréttaveituna, segir einn stærsti eigandi aflandskróna að með því að hafna tilboði Seðlabanka Íslands um að selja þeim evrur fyrir krónur á genginu 137,50 fyrir hverja evru muni þeir veðja á að fá hagstæðara gengi þegar höftum verði að fullu aflétt.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, þ.e. að sagt var að þeim krónueigendum sem ekki hefðu gert samkomulag við bankann yrði boðið að gera sams konar samninga.

Ef hv. þingmaður gæti komið aðeins inn á það vegna þekkingar hans á málinu og samskiptum við vogunarsjóðina. Hvers vegna telur hann að þessi sinnaskipti (Forseti hringir.) hafi orðið, þ.e. að fallið hafi verið frá því að gera sams konar samninga?