149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist í einföldu máli að Miðflokkurinn vilji gera einhvers konar eignarnám á fjármunum þessara aðila sem ég held að séu alls konar. Í sumum tilvikum er um að ræða vogunarsjóði, eins og nefnt hefur verið, en í þessum hópi eru líka einstaklingar sem hafa verið læstir hér inni frá því að höftin voru sett á 2008. Þetta mál snýr að trúverðugleika okkar gagnvart erlendri fjárfestingu. Það er ekkert vestrænt ríki með sjálfsvirðingu sem grípur til þess að beita löggjafanum til að gera einhvers konar eignarnám á eignum erlendra fjárfesta í lögsögu sinni þegar engin þörf krefur.

Við beittum vissulega ríkum neyðarrétti okkar eftir hrun með setningu neyðarlaganna og með stöðugleikasamningunum á sínum tíma vegna þess að þjóðhagslegir hagsmunir voru í húfi. Það var virt. Það stóðst þær málssóknir sem höfðað var til vegna slíkra mála. Þetta mál og ræður hv. þingmanna Miðflokksins eru 14 tímar af ótrúlegri, dæmalausri vitleysu um eitthvað sem aldrei stæðist væri látið á það reyna fyrir dómstólum. Raunar kemur það afskaplega óskýrt fram hvernig í ósköpunum Miðflokkurinn ætlar að beita sér með öðrum hætti en þeim að ljúka eðlilegu afnámi hafta og hleypa því fjármagni út sem bundið hefur verið hér inni.