149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek heils hugar undir með honum að hér er ekki um neitt eignarnám að ræða og hefur aldrei verið. Það var verið að samræma aðgerðir og stjórnvöld stóðu pólitískt saman í þeim efnum, þess vegna gekk haftalosunin með ágætum þar til að það verða ríkisstjórnarskipti. Þá fyrst byrja menn að gefa eftir undir forystu Sjálfstæðisflokksins og síðan forystu Vinstri grænna.

Ég segi bara eins og er og bið hv. þingmenn að hafa það í huga og rifja upp að mér fannst í ræðu hv. þm. Þorsteins Víglundssonar eins og hann hefði ákveðna samúð með vogunarsjóðunum. Ég get alls ekki fallist á það. Við skulum bara rifja upp kosningabaráttuna, hvernig þeir reyndu að hafa áhrif á kosningar hér í landinu, fullvalda ríki, með algerlega gagnsæjum hætti. Það var ekki verið að fela nokkurn skapaðan hlut. Á sama tíma sjáum við að t.d. Rússar hafa verið sakaðir um að hafa afskipti af kosningum í Finnlandi, Hollandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, en þeir reyna að fela það eins og þeir frekast geta. En hér var byrjað á því að læða inn áróðri á Twitter gegn stjórnvöldum og sérstaklega þáverandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, vogunarsjóðirnir óttuðust mjög að hann yrði áfram forsætisráðherra. Þegar það dugði ekki var birt heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu sem eflaust einhver ykkar þekkja þar sem var sagt að það ríkti spilling í Seðlabankanum og þar var einn starfsmaður m.a. nafngreindur sérstaklega. Þetta eru vinnubrögð sem eiga ekki að líðast í lýðræðisríki og það átti að sjálfsögðu að rannsaka þetta mál til hlítar. Það að sýna þessum aðilum einhverja miskunn og hafa einhverja samúð gagnvart þeim get ég aldrei skrifað undir, herra forseti.